Innlent

Misræmi í skýrslum lögreglu og ríkissaksóknara

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá aðgerðum í Hraunbæ í desember sl.
Frá aðgerðum í Hraunbæ í desember sl. Vísir/Pjetur
Í frumskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna aðgerða í Hraunbæ, sem leiddu til þess að lögregla skaut Sævar Rafn Jónasson til bana, kemur fram að lögreglumenn hafi vitað hver var í íbúðinni áður en þeir fóru þar inn. Þetta er ekki í samræmi við það sem kemur fram í skýrslu ríkissaksóknara sem rannsakaði aðgerðir lögreglu á staðnum. Þar segir að lögreglumenn hafi ekki vitað við hvern þeir voru að fást við. Um málið var fjallað í Kastljósi í kvöld.

Sævar Rafn Jónasson var skotinn til bana í desember sl. af sérsveit lögreglunnar. Afskipti lögreglunnar hófust þegar kvörtun barst frá nágranna Sævars vegna tónlistar sem var hátt spiluð í íbúð Sævars á 2. hæð í Hraunbæ 20. Þar að auki hafði hár hvellur heyrst úr íbúðinni.

Lögreglumenn vissu ekki í upphafi að þeir væru að fást við Sævar Rafn. Vegna misskilnings töldu þeir að um annan mann væri að ræða og var honum flett upp í málaskrá en ekki Sævari. Fram kemur í skýrslum lögreglumanna af vettvangi, sem Kastljós hefur undir höndum, að lásasmiður sem kallaður hafi verið til hafi vitað að Sævar byggi í íbúðinni þar sem hann hafi opnað fyrir honum áður.

Ef Sævari hefði verið flett upp hefðu lögreglumenn getað séð að hann hafði margsinnis áður komið við sögu lögreglu. Lögreglan hafði meðal annars þurft að aðstoða lækna við að flytja hann upp á geðdeild. Það hefði því legið ljóst fyrir að lögreglan var að eiga við andlegan veikan einstakling.

Ríkissaksóknari telur að aðgerðir lögreglu í Hraunbæ hefðu verið með öðrum hætti ef ljóst hefði verið í upphafi að Sævar byggi í íbúðinni. Engu að síður komst saksóknari að þeirri niðurstöðu við rannsókn sína að lögreglan hefði ekki gerst sek um refsiverða háttsemi eða gáleysi í þeim aðgerðum sínum sem leiddu til þess að Sævar var skotinn til bana.


Tengdar fréttir

"Hann hótaði að gera þetta fyrir nokkrum mánuðum"

Systur Sævars Rafns Jónassonar, sem lést eftir að hafa skipst á skotum við lögreglu í gær, segja hann hafa hótað aðgerðunum nokkrum mánuðum áður en hann lét til skarar skríða.

Vonar að bið eftir krufningum styttist

Ríkissaksóknari hefur enn ekki fengið krufningarskýrslu frá réttarmeinafræðingi vegna rannsóknar embættisins á atviki í Hraunbæ í desember þar sem lögreglumenn skutu mann til bana.

Verðmunur á milli hverfa aldrei meiri

70% munur er á hæsta og lægsta fermetraverði í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu. Fermetraverð í miðborginni er að meðaltali 335 þúsund krónur en 192 þúsund krónur á Vöngum í Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×