Innlent

Misnotaði þroskahamlaða konu sem vildi passa börn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jóhannes Óli stofnaði árið 2012 eineltissamtökin Sólskinsbörn. Yfirlýst markmið samtakanna var að berjast gegn einelti
Jóhannes Óli stofnaði árið 2012 eineltissamtökin Sólskinsbörn. Yfirlýst markmið samtakanna var að berjast gegn einelti
Jóhannes Óli Ragnarsson, 32 ára karlmaður sem á dögunum var dæmdur í tíu ára fangelsi kynferðisbrot gegn tveimur ungum drengjum og þroskahamlaðri konu á þrítugsaldri, bauð konunni heim til sín á þeim forsendum að henni stæði til boða starf við barnapössun. Konan hafði sett auglýsingu í fjölmiðla síðla árs 2013 þar sem hún bauð fram krafta sína við barnapössun. Jóhannes bauð henni í kjölfarið í heimsókn til sín þar sem hann þvingaði hana til kynferðislega athafna.

Vísir fjallaði um dóminn þegar hann féll þann 18. desember en hann er með þeim þyngstu sem fallið hafa í kynferðisbrotamálum hér á landi. Dómurinn hefur nú verið birtur á heimasíðu Héraðsdóms Norðurlands Eystra en hafði þangað til ekki verið aðgengilegur fjölmiðlum. Fyrir lágu upplýsingar um brot mannsins gegn drengjunum tveimur sem komið höfðu fram í greinargerð lögreglu vegna endurtekinnar kröfu um gæsluvarðhald sem birtar eru á vef Hæstaréttar.

Ótrúverðugur framburður

Jóhannes Óli sagðist fyrir dómi hafa hringt í ungu konuna til að kynnast henni. Hún hefði minnst á áhuga sinn til að passa börn í símtalinu en hann hefði ekki haft neina þörf fyrir slíka þjónustu. Hann sagðist þó hafa séð umrædda auglýsingu. Hann neitaði því að hafa viðhaft kynferðisleg atlot en þau hefðu þó kysst og viðhaft strokur utan klæða.

Konan hélt því hins vegar fram að hann hefði boðið henni heim til sín til að passa barn. Bróðir konunnar skutlaði henni þangað og sagði hana hafa verið afar spennta. Það hefði verið draumur hennar að starfa við barnapössun. Hún hafi verið í íbúð mannsins í klukkustund þar sem hann hefði meðal annars sagt þurfa að refsa henni, hefði rassskellt hana og neytt til munnmaka.

Að mati dómsins var framburður konunnar, sem hafi þroska á við ungt barn, einlægur og trúverðugur. Framburður Jóhannesar hafi hins vegar verið ótrúverðugur „og þar á meðal að honum hafi ekki í ljósi símaviðræðna og síðari samskipta getað dulist að brotaþoli ætti við verulega greindarskerðingu að stríða.“

Var Jóhannes dæmdur fyrir að nýta sér andlega fötlun konunnar. Varðar það brot á 2. málsgrein 194. greinar almennra hegningarlaga þar sem segir að það teljist til nauðgunar að notfæra sér „geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök.“

Sex milljónir í bætur

Jóhannes Óli var dæmdur til að greiða konunni eina milljón krónur í miskabætur en farið var fram á 2,5 milljónir króna í bætur. Þá var hann dæmdur til að greiða drengjunum tveimur 2,5 milljón króna í bætur en forráðamenn drengjanna fóru fram á fjórar milljónir króna.

Dómurinn í heild sinni


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×