Erlent

Minnst 33 látnir í vöruskemmunni

Samúel Karl Ólason skrifar
Vöruskemman var kölluð Ghost Ship, eða Draugaskipið og voru forsvarsmenn hans ekki með leyfi til tónleikahalds.
Vöruskemman var kölluð Ghost Ship, eða Draugaskipið og voru forsvarsmenn hans ekki með leyfi til tónleikahalds. Vísir/EPA
Búið er að finna minnst 33 lík í vörkuskemmu í Oakland í Kaliforníu eftir að eldur kom upp þar í gær. Tónleikar voru í húsinu þegar eldurinn kviknaði, en einungis er búið að leita í tæplega helmingi hússins. Búist er við því að fjödi látinna muni hækka á næstu dögum. Um hundrað manns voru á tónleikunum.

Hægt gengur að leita í húsinu vegna þess hve mikið brak er í því.

Meðal hinna látnu er fólk frá Evrópu, Asíu og hefur einn 17 ára táningur fundist.

Vöruskemman var kölluð Ghost Ship, eða Draugaskipið og voru forsvarsmenn hans ekki með leyfi til tónleikahalds. Einungis tveir útgangar voru á húsinu og þar voru engar brunavarnir. Þá hefur því verið lýst sem völundarhúsi byggt úr timbri. Gólfið var klætt teppi og samkvæmt East Bay Express mátti þar finna fjölda eldfimra efna.

Hægt er sjá myndir úr húsinu og hvernig það var innréttað á Oaklandghostship.com.

Fjölmargar kvartanir bárust

Börn parsins sem rak Draugaskipið, Derick Ion Almena og Micah Allison, voru tekin af þeim af barnaverndaryfirvöldum í byrjun árs í fyrra þar sem þau bjuggu í vöruskemmunni, ásamt öðru listafólki, og var hún ekki talin íbúðarhæf.

Fjölskylda Micah Allison hafði hringt í barnarvendaryfirvöld vegna ástands barnanna. Parið höfðu nýverið fengið yfirráð yfir börnunum á ný. Þau voru ekki í húsinu þegar eldurinn kom upp og er ekki vitað hvar þau eru.

Slökkviliðsmenn segja líklegt að fjöldi fólks hafi ekki komist úr húsinu þar sem einn heimagerður stigi, byggður úr vörubrettum, tengdi saman neðri og efri hæð hússins. Embættismenn Oakland voru með húsið til rannsóknar þar sem fjöldi kvartana meðal annars vegna umgengni og ólöglegra breytinga höfðu borist til borgarinnar.

Rannsakendur höfðu þó ekki komist inn í bygginguna og tókst þeim ekki að staðfesta að fólk byggi í henni.

Fyrrverandi íbúi Draugaskipsins lýsir húsinu sem „dauðagildru“.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×