Erlent

Minnst 31 létu lífið í sprengjuárás í Kabul

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Um er að ræða fjórðu árásina á kosningamiðstöð síðan skráning nýrra kjósenda hófst.
Um er að ræða fjórðu árásina á kosningamiðstöð síðan skráning nýrra kjósenda hófst. Vísir/AFP
Minnst 31 létust og tugir særðust þegar árásarmaður sprengdi sjálfan sig í loft upp fyrir utan kosningamiðstöð í Kabúl, höfuðborg Afganistans, í dag. Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni. Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá.

Sprengjan var sprengd fyrir utan kosningamiðstöð þar sem var verið að að skrá nýja kjósendur en þingkosningar eiga að fara fram í landinu í október. Miðstöðin er á Dasht-e Barchi svæðinu í vesturhluta borgarinnar þar sem fjölmargir síar búa. Þeir hafa verið skotmark árása íslamska ríkisins í talsverðan tíma.

Um er að ræða fjórðu árásina á kosningamiðstöð síðan skráning nýrra kjósenda hófst. Innanríkisráðherra landsins segir að bæði Talibanar og Íslamska ríkið geri almenna borgara að skotmörkum sínum til að espa þá upp gegn ríkisstjórninni og skapa ringulreið.

Ashraf Ghani, forseti Afganistan, hefur verið undir miklum þrýstingi frá alþjóðasamfélaginu að kosningarnar verði haldnar á árinu og forsetakosningar á næsta ári en efasemdir hafa verið um að það verði af þingkosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×