Viðskipti innlent

Minnka kostnað um fjóra milljarða

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Í verksmiðjunni. Um fjórðungur af starfsemi Marel er á Íslandi en um eitt prósent af tekjum kemur héðan.
Í verksmiðjunni. Um fjórðungur af starfsemi Marel er á Íslandi en um eitt prósent af tekjum kemur héðan. fréttablaðið/valli
Tæpt ár er liðið frá því að Árni Oddur Þórðarson tók við sem forstjóri Marels af Theo Hoen. Ástæða forstjóraskiptanna var sú að stjórn þótti fyrirtækið ekki starfa eftir þeirri stefnu sem sett hafði verið um rekstur félagsins og afkoman hafði valdið vonbrigðum. Árni Oddur segir að stefnan hafi verið sett á að reka fyrirtækið á hagkvæman hátt en jafnframt að vaxa mjög kröftuglega í Asíu, Suður-Ameríku, Afríku og víðar til jafns við Evrópu og Bandaríkin. Jafnframt þyrfti að samþætta þau félög sem Marel hefur keypt á undanförnum árum. „Niðurstaðan varð að mati stjórnarinnar þá í nóvember að ég myndi skipta um starf og fara úr stjórnarformannsstarfinu í það að verða forstjóri. Við skulum muna það að við vorum ekki að breyta stefnu félagsins, hún hefur verið sú sama frá 2006 að minnsta kosti, en við vildum aðlaga reksturinn að stefnunni,“ segir Árni Oddur.

Var það ekki að takast fram að þeim tíma?

Árni Oddur segir að rekstrarárangur 2013 hafi verið óviðunandi, samdráttur í tekjum hafi verið sjö prósent og og hagnaður dregist saman um 33 prósent. Árni Oddur segir að samdráttur í tekjum hafi í sjálfu sér ekki verið óviðunandi miðað við það að það hafi komið upp hrossakjötsskandall í Evrópu og fuglaflensa í Kína sem hafi gert það að verkum að viðskiptavinir Marels þurftu að endurhugsa alla virðiskeðjuna. „En það sem var ekki nægjanlega gott við sjö prósent samdrátt er að fasti kostnaðurinn er það mikill í félaginu með átján verksmiðjur að hagnaðurinn dróst saman um 33 prósent. Við viljum vera meira dýnamísk og meira sveiflujafnandi,“ segir Árni Oddur. Í lok síðasta árs hafi því verið kynntar breytingar á uppsetningu á framkvæmdastjórn.

Framleiðslustýring og innkaupastýring var þá sett upp þvert á fyrirtækið og það sama verði gert í nýsköpun. Með þessum hætti geti þessi svið stutt betur við framleiðslueiningar í kjöti, kjúklingi, fiski og áframvinnslu. Í upphafi árs voru áherslur til að skerpa á rekstrinum kynntar. Árni Oddur leggur mikla áherslu á að verið sé að skerpa áherslur og samþætta þau fyrirtæki sem Marel hefur keypt, en ekki endurskipuleggja reksturinn.

Margar skýringar á bættum rekstri

Má rekja þann viðsnúning sem hefur orðið til hagræðingar eða breyttra markaðsaðstæðna?

Árni Oddur segir að fleiri en einn þáttur skýri bættan rekstur Marels. „Því er ekki að leyna að markaðsaðstæður eru góðar. Þær eru búnar að vera mjög góðar síðustu tvö árin en voru mjög slæmar 2011. Ef við horfum á okkar viðskiptavini þá er það sem skiptir verulegu máli eftirspurn eftir þeirra vörum,“ segir Árni Oddur. Verð á korni og olíu skipti líka máli. Það hafi þrefaldast árið 2011. „En í ár er eftirspurn umfram framleiðslugetu viðskiptavina okkar. Og kornverð og orkuverð nokkuð stöðugt, frekar lækkandi en hækkandi en það skiptir máli að það sé stöðugt,“ segir hann. Það hafi líka verið skerpt á markaðssókninni. Í stað þess að horfa til þess hvaða vörur sé verið að selja sé núna horft til þess hvaða þörfum félagið er að sinna. „Gróft áætlað erum við að horfa á að okkar tekjustreymi skiptist í þrennt. Marel er að endurnýja og stækka verksmiðjur viðskiptavina sinna, þá að meginefni til viðskiptavina í Evrópu og í Bandaríkjunum, félagið er að reisa nýjar verksmiðjur á nýmörkuðum á borð við Suður-Ameríku, Asíu og Afríku og í þriðja lagi eru það varahluta- og þjónustusamningar. Þannig að í staðinn fyrir að horfa á hvaða tæki við erum að selja þá erum við að horfa á hvaða þörfum við erum að mæta.“

Uppgjör Marel á þriðja fjórðungi lítur vel út. Sala jókst um tæp 20%, hagnaður um meira en 60 prósent og pantanabók stendur vel. Á efnahagsreikningi sést að viðskiptavild jókst um sex milljónir evra, hvernig skýrirðu það?

„Það er einungis vegna þess að við keyptum fyrirtæki í Danmörku á öðrum ársfjórðungi sem var að sinna þjónustu og viðhaldi viðskiptavina í Danmörku og Svíþjóð. Við viljum sinna þeim viðskiptum sjálfir. Þannig að við keyptum þann aðila, sem var þjónustuaðili þar, á fyrsta ársfjórðungi og viðskiptavildin jókst um það kaupverð,“ segir Árni Oddur.

forstjóri í ár Árni Oddur segist vilja að fyrirtækið sé dýnamískara en það hafi verið og það þurfi að geta tekist á við sveiflur.fréttablaðið/valli
Verið að sameina fimm félög

Geturðu lýst fyrir mér þeim hagræðingaraðgerðum sem þið hafið farið í frá því að þú tókst við sem forstjóri?

Árni Oddur segir að fyrsta verkefnið hafi verið að lýsa því sem til stóð að gera. „Við erum með fimm félög sem við erum að sameina. Og við sögðum að leiðarvísirinn væri að sameina allar deildir sem væru að sinna sömu viðskiptavinaþörf og byggðu á sömu grunntækni,“ segir Árni Oddur.

Á vegum Marel séu reknar 18 verksmiðjur og til standi að hafa þær færri og stærri. Til dæmis hafi nú þegar tvær verksmiðjur verið sameinaðar. „Ef við tökum fyrst laxaverksmiðjuna sem er mjög skemmtilegt dæmi af því að þar eru engar uppsagnir, þar erum við að takast á við aukinn vöxt frá viðskiptavinum okkar og erum með geysilega sterka markaðshlutdeild í tækjabúnaði í laxavinnslu. Við erum með yfir 50% markaðshlutdeild í því. Þá flytjum við frá Norresund í Danmörku yfir í Støvring í Danmörku í nýtt og glæsilegt húsnæði, vel tækjum búið, klárum það í fyrsta og öðrum ársfjórðungi og vinnum á fullum afköstum í þriðja ársfjórðungi,“ segir Árni Oddur. Núna geti fyrirtækið framleitt mun meira á mun hagkvæmari máta, sem sé gott því ræktun á laxi hafi aukist um ellefu prósent á ári síðustu fimmtán árin vegna vinsælda Omega3 og sushi. „Þetta tókst okkur að gera án þess að nein truflun yrði gagnvart viðskiptavinum. Við færðum allan þann kostnað í gegnum bækurnar í fyrsta og öðrum ársfjórðungi og við þurftum að reka tvær verksmiðjur samtímis til þess að viðskiptavinurinn yrði ekki fyrir neinum áföllum, fengi vöruna í réttum gæðum á réttum tíma. Nú erum við komin í nýja húsnæðið,“ segir hann. Hitt dæmið sé erfiðara. Fyrirtækið sé að flytja verksmiðju í Oss í Hollandi sem þjónustaði kjötiðnaðinn og var með 140 starfsmenn og fækka þar um sextíu starfsmenn. Verksmiðjan verður flutt til Boxmeer og sameina undir einu setri kjötiðnaðardeild, kjúklingadeild og áframvinnslu.

Árni Oddur segir að lokið hafi verið við flutning á laxaverksmiðjunni og flutningurinn frá Oss til Boxmeer sé samkvæmt plani. „Við erum hálfnuð og klárum það fyrir árslok. Beinn sparnaður af því að flytja Oss til Boxmeer eru fjórar milljónir evra á ári. Til viðbótar við beinan sparnað er megintilgangurinn að ná saman nýsköpunarsetrum í kjötiðnaðarsetri, kjúklingaiðnaðarsetri og áframvinnslu til að sinna þörfum viðskiptavina enn betur á hagkvæman máta og tryggja stöðugt flæði á framúrskarandi lausnum í eina heild til að tryggja enn frekar flæði á framúrskarandi vörum,“ segir hann.

Snúast þessar aðgerðir bæði um tilfærslur á kostnaði og beinar hagræðingaraðgerðir?

„Þetta er beinn sparnaður. Þegar þú ert að reka verksmiðjur þá ertu með yfirstjórn, tölvudeild, starfsmannahald og fleira. Að auki erum við að nýta mannskapinn betur en ekki síður að nýta húsin og tækjakostinn betur. Marel réðst í mjög erfiðar aðgerðir þegar lokað var á Ísafirði fyrir fimmtán árum. Þar var verið að framleiða sjóvogir, kosturinn var að hafa sérhæft vinnuafl sem gat einbeitt sér að þessu. Gallinn var að þegar það var umframeftirspurn þá þurfti að vinna yfirvinnu, svo datt eftirspurn eftir þessari vöru niður og þá lá allt í ládeyðu. Eftir flutninginn hingað og eftir að þessi framleiðsla varð partur af Garðabæjarteyminu, þá getum við flutt vinnuafl á milli eftir því hvar eftirspurnin er,“ segir Árni Oddur. Marel sé með með átján verksmiðjur í framleiðslukerfinu en þeim verði fækkað um helming. Hver verksmiðja sem eftir stendur muni geta sinnt þremur eða fjórum mismunandi tegundum af iðnaði af þeim fjórum tegundum sem fyrirtækið sinnir núna í heild sem er fiskur, kjúklingur, kjöt og áframvinnsla. Sérstakt átak í hagræðingarferlinu muni standa yfir í ár og næsta ár.

Frekari hagræðing fram undan

Hve margir hafa sagt skilið við fyrirtækið á einu ári?

„Við sögðum upp 75 á fyrsta ársfjórðungi, þar af 35 millistjórnendum,“ segir Árni Oddur. Gamla skipulag fyrirtækisins hafi verið tekið úr gildi. Fyrir þremur árum hafi svo verið kynnt til sögunnar nýtt skipulag þess efnis að félagið hygðist reiða sig á fjóra iðnaðargeira. „En í raun var gamla skipulagið ekki tekið úr sambandi þannig að við byrjuðum þar. Við byrjuðum á þeirri aðgerð og síðan er fækkun í Oss um sextíu,“ segir Árni Oddur en bætir við að fram undan sé frekari samþætting á framleiðslukerfinu. Hann telur að um fimmtán manns hafi látið af störfum hér á Íslandi.

Þannig að kostnaðurinn mun dragast saman áfram?

„Já, já, við höfum sagt að við ætlum á þessum tveimur árum að ná sparnaði sem nemur 25 milljónum evra eða fjórum milljörðum íslenskra króna á ári. Hins vegar er aðalatriðið að auka sölutekjur og auka verðmætið í sölutekjum. Mikilvægt er að allt fyrirtækið vinni sem ein heild, til að mynda að hönnunarvinnan sé þvert á fyrirtækið og vinni mjög náið með framleiðslustýringunni og sölustýringunni,“ segir Árni Oddur. Síðustu árin hafi fókus fyrirtækisins aukist meira og meira úr sérhæfðum lausnum í staðlaðar lausnir líkt og þær lausnir sem fyrirtækið er nú að selja í kjúklingaiðnaði til Afríku, Asíu og Suður-Ameríku.

Aðspurður um framtíðarmarkaði fyrirtækisins segir Árni Oddur að Marel sé alþjóðlegt félag. Einungis eitt prósent af tekjunum sé á Íslandi. „Fimmtíu prósent af nýsölu hjá okkur eru utan Evrópu og Bandaríkjanna. Þannig að við erum algjörlega alþjóðlegt félag. Það eru mikil tækifæri í Evrópu í endurnýjun á verksmiðjum og það eru mikil tækifæri í Bandaríkjunum í stækkun og endurnýjun á verksmiðjum. Það gleymist oft að Bandaríkin eru vaxtarmarkaður. Bandaríkin eru að fara úr 350 milljónum í 400 milljónir manns á næstu 20 til 30 árum á meðan Evrópa er ekki stækkanlegur markaður í sjálfu sér. Það eru hins vegar tækifæri þar til að endurnýja,“ segir Árni Oddur. Sé hins vegar horft á stóru tækifærin fram undan þá séu þau í Suður-Ameríku og öðrum nýmörkuðum, Brasilía sem dæmi, sem sé reyndar ekki nýr markaður heldur einn af kjarnamörkuðunum og Marel hafi þjónustað kjúklingaframleiðendur í 30 ár. „Þeir voru fyrir 30 árum á svipuðum stað og Afríka er í dag,“ segir Árni Oddur. Þá nefnir Árni Oddur Síle, Mexíkó, Úrúgvæ, Asíu, Kína og Indland. „Við seldum fyrsta stóra kerfið í kjúklingi á Indlandi á öðrum ársfjórðungi. Við erum búnir að vera með endurtekna sölu í Kína, Víetnam og Taívan,“ segir Árni Oddur. Marel hafi einnig selt framleiðslu til Miðausturlanda í 15-20 ár. „Þau eru að leggja mikla áherslu á eigin framleiðslu, eins og nánast öll þessi lönd í heiminum utan Evrópu og Bandaríkjanna,“ segir Árni Oddur.

Fjörutíu prósent af veltu Marels koma í gegnum þjónustu- og varahlutatekjur. „Við sjáum meiri vöxt í því. Við höfum fram að þessu verið að sinna viðskiptavinum þegar þeir panta varahluti eða þjónustu,“ segir Árni Oddur. Marel sé í auknum mæli að selja vörurnar með ábyrgð. „Viðskiptavinurinn vill það, vegna þess að hann vill vita hver kostnaður af viðhaldi er og hann vill vera öruggur um að framleiðslan haldist gangandi og að varahlutir komi hratt og örugglega. Þetta er kostur líka því að ef við seljum þjónustuna fyrirfram þá getum við skipulagt okkur betur,“ segir Árni Oddur og bendir á að hjá fyrirtækinu starfi 900 manns um allan heim í þjónustu, átta hundruð manns starfi einungis í sölu og tólf hundruð í verksmiðjunni. Heildarstarfsmannafjöldi fyrirtækisins er fjögur þúsund. Árni Oddur telur ekki ólíklegt að þjónustutekjurnar muni hækka upp í fimmtíu prósent. „Á kjarnamörkuðum okkar í Evrópu og Bandaríkjunum eru þjónustutekjur í kringum 50%. Á nýrri kjarnamörkuðum, eins og Brasilíu, eru þær 30-40% en á nýjustu mörkuðunum um 10%,“ segir Árni Oddur.

Höfuðstöðvarnar munu ekki fara

Eitt prósent af tekjunum kemur frá Íslandi og þið eruð alþjóðlegt fyrirtæki. Hefur það þá þýðingu að reka fyrirtækið héðan, í höftunum?

Árni Oddur segir að það hafi mikla þýðingu að hafa starfsemi hér, óháð því hvar höfuðstöðvarnar eru. „Það er mikils virði fyrir okkur að vinna með þessum framúrskarandi sjávarútvegsfyrirtækjum, Samherja, HB Granda, Vísi, Icelandic Group og endalaust af framúrskarandi sjávarútvegsfyrirtækjum hér sem við vinnum mjög náið nýsköpunarstarf með. Þannig að það er gríðarlega verðmætt fyrir okkur að vera með starfsemi á Íslandi. Í sjálfu sér er gott að vera með fyrirtæki á Íslandi. Hins vegar ef við værum ekki undanþegin gjaldeyrishöftum, sem meginþorri fyrirtækja er ekki undanþeginn, þá myndi ég nú ekki bjóða í það að vera á íslandi. Við gætum ekki starfað án undanþágu frá gjaldeyrishöftum,“ segir Árni Oddur. Framúrskarandi nýsköpunarfyrirtæki geti orðið til á Íslandi en á meðan höftin eru við lýði verða þau ekki að stórfyrirtækjum.

En framhaldið, eruð þið að fara?

„Nei, í sjálfu sér, það sem hefur gert það að verkum að svona félög gátu vaxið og geta verið staðsett hvar sem er, er upplýsingatækni. Við getum unnið þvert á lönd og erum með þýðingarmikla starfsemi hér. Við erum líka með mikla bakhjarla í íslenskum eigendum sem hafa fylgt okkur eftir. Við viljum hins vegar að hlutabréfin geti gengið kaupum og sölum á alþjóðamörkuðum vegna þess að Marel vekur athygli víða en fólk treystir sér ekki inn í íslensku gjaldeyrishöftin,“ segir Árni Oddur. Hann segir það vera mjög óheppilegt að gjaldeyrishöftin komi í veg fyrir að erlendir fjárfestar keypti keypt hlut í Marel.

Kemur til greina að skrá félagið annars staðar?

„Ég vonast frekar til þess að það leysist úr gjaldeyrishöftunum fyrst,“ segir Árni Oddur og bendir á að fyrirtækið sé skráð á Nasdaq-markaðinn í gegnum Kauphöll Íslands. Hann bendir á að það sé opinberlega á stefnuskrá Marels að tvískrá félagið, en það muni ekki gerast alveg í nánustu framtíð. „Öll okkar augu eru á rekstrinum og við erum ekki mjög upptekin af skráningu á Íslandi eða skráningu erlendis,“ segir Árni Oddur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×