Innlent

Minnir á að skipverjinn er saklaus þar til sekt er sönnuð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skipverjinn er í gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði. Hann var fluttur þaðan af Litla-Hrauni í gær þar sem hann hafði verið í einangrun í tæpar sex vikur.
Skipverjinn er í gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði. Hann var fluttur þaðan af Litla-Hrauni í gær þar sem hann hafði verið í einangrun í tæpar sex vikur. vísir/eyþór
Verjandi skipverjans á grænlenska togaranum Polar Nanoq sem sakaður er um að hafa banað Birnu Brjánsdóttur segir einangrun skipverjans hafa varað of lengi. Þeir rannsóknarhagsmunir sem lögreglan hafi vísað til við kröfu sína um einangrun hafi ekki verið fyrir hendi. 

Skipverjinn, sem hefur verið í einangrun í tæpar sex vikur á grundvelli rannsóknarhagsmuna, var leystur úr einangrun í gær og fluttur af Litla-Hrauni í fangelsið á Hólmsheiði. Til stendur að á Hólmsheiði verði þeir vistaðir sem úrskurðaðir hafa verið í gæsluvarðhald.

Verjandinn, Páll Rúnar M. Kristjánsson, segir í samtali við Vísi að það hafi ekki komið sér á óvart að skipverjinn var leystur úr einangrun í gær.

 

Skipverjinn hefur í þrígang verið úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald. Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir honum á morgun.vísir/gva
Einangrunarvist skaðleg

„Það kemur ekki á óvart. Það voru einfaldlega ekki til staðar þeir rannsóknarhagsmunir sem kröfðust þess að hann sætti einangrun. Einangrun hans hefur því varað lengur en nokkur nauðsyn bar til.“

Verjandinn ræddi einangrunarvist í Vikulokunum á Rás 1 í síðustu viku. Þar kom hann inn á þá skoðun sína að alltof mikið væri um notkun einangrunarvistar. Leggja yrði þá kröfu á herðar rannsakenda að sýna fram á að skilyrði fyrir einangrunarvist væru uppfyllt og það yrði að gera með áþreifanlegum hætti.

„Það er mjög sjaldgæft að kröfu um einangrun sé hafnað af dómstólum. Til þess að hægt sé að samþykkja einangrun einstaklings þá þurfa að vera til staðar mjög ströng skilyrði, dómstólar verða að gera þá kröfu að rannsakendur sýni efnislega fram á nauðsyn slíkrar ráðstöfunar með vísan til áþreifanlegra gagna og raunhæfra ástæðna,“ segir Páll. 

„Það verður að hafa það í huga að svona einangrunarvist er sérstaklega þungbær og skaðleg einstaklingum sem ekki hafa verið dæmdir.”

Pál Rúnar M. Kristjánsson hæstaréttarlögmaður.
Neitar staðfastlega sök í málinu

Skipverjinn, hefur að sögn Páls Rúnars, neitað sök í málinu frá upphafi. Rétt sé að hafa í huga að samkvæmt lögum skuli menn taldir saklausir uns sekt þeirra er sönnuð. 

„Í íslenskum rétti gildir að maður er saklaus uns sekt er sönnuð. Þó reglan kunni að njóta takmarkaðra vinsælda meðal almennings þegar að mikið gengur á þá gildir hún engu að síður í rétti allra þróaðra lýðræðis- og réttarríkja. Þessi regla kemur t.d. fram í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar en einnig er hana að finna í öllum helstu mannréttindasáttmálum sem Ísland á aðild að. Og ekki að ástæðulausu,“ segir Páll Rúnar.

„Þessi regla þjónar mikilvægu hlutverki sem sýnir sig helst á viðsjárverðum tímum. Henni er m.a. ætlað að varna því að mannréttindi sakborninga séu borin ofurliði þegar þrýstingur er á að ná fram tiltekinni niðurstöðu í sakamáli.

Það er því mikilvægt að virða þann rétt í hvívetna, sérstaklega þegar mikið er í húfi. Sakborningurinn í þessu máli hefur staðfastlega neitað sök. Það er hans réttur og af þeim rétti leiðir að líta ber á hann sem saklausan þar til annað er sannað. Það er hlutverk dómstóla er að dæma þar um.”

Grímur Grímsson á von á því að rannsókn málsins ljúka á næstu tveimur til þremur vikum.Vísir/Anton Brink
Mótmæla kröfu um gæsluvarðhald

Gæsluvarðhald yfir skipverjanum rennur út á morgun. Einar Guðberg Jónsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sagði við RÚV í gær að farið yrði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir skipverjanum sem hefur nú varað í sex vikur eða frá því hann var handtekinn þann 18. janúar.

„Ég geri fastlega ráð fyrir að þeirri kröfu verði mótmælt. Einstaklingur sem heldur fram sakleysi sínu telur líklega aldrei ástæðu til að svipta sig frelsi.”​

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem fer fyrir rannsókn málsins, hefur sagst reikna með því að rannsókn málsins ljúki á næstu tveimur til þremur vikum.

Síðast sást til Birnu Brjánsdóttur á eftirlitsmyndavélum í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardagsins 14. janúar. Lík hennar fannst í fjörunni við Selvogsvita rúmri viku síðar. Lögregla telur skipverjann hafa tekið Birnu upp í bílaleigubíl í miðbæ Reykjavíkur umrædda nótt og ráðið henni bana þá um morguninn.

Ítarlega umfjöllun um málið má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×