Innlent

Minnihlutinn í Hafnarfirði segir bæjarstjórnarfundinn ólöglegan

Linda Blöndal skrifar
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í morgun viðamiklar breytingar á stjórnskipun bæjarins. Minnihlutinn í bæjarstjórn segir fundinn ólöglegan og að gögnum hafi verið haldið frá sér og bæjarbúum.

Sameina svið og nýta betur starfskrafta

Verkefnasvið verða sameinuð til að nýta betur starfskrafta bæjarins og hagræða í rekstri. Starf sviðsstjóra skipulags og bygginga verður lagt niður og fært undir annan málaflokk, nýtt fjármálasvið stofnað og hafnarþjónustan mun færast beint undir bæjarstjóra. Boðað var til aukabæjarstjórnarfundar á föstudagskvöldið sem minnihluti Samfylkingar og VG gagnrýnir harðlega.

Vilja úrskurð um lögmæti fundarins

„Við gerum í fyrsta lagi athugasemdir við boðun fundarins. Fyrirvarinn er of skammur að okkar mati og ekki í samræmi við lög. Við munum vísa því til innanríkisráðuneytisins og kalla eftir því að ráðuneyti úrskurði um lögmæti fundarins,” sagði Gunnar Axel Axelsson, fulltrúi Samfylkingarinnar, í fréttum á Stöð 2 í kvöld.

Fengum sextán tíma til að lesa

„Það er gert ráð fyrir því í sveitarstjórnarlögum og sú skylda lögð á herðar sveitarstjórnarmanna að þeir undirbúi sig undir fundi og taki upplýstar og vandaðar ákvarðanir. Við teljum að í þessu tilviki hafi verið komið í veg fyrir að við gætum það,” segir Gunnar Axel. Hann segir ennfremur að minnihlutafulltrúar hafi ekki fengið gögn fyrr en mjög seint.

„Við fengum tvö hundruð blaðsíðna skýrslu seinni partinn í gær, sextán klukkutímum fyrir bæjarstjórnarfund. Þessa skýrslu áttum við að vera búin að kynna okkur í morgun. Og tillögur meirihlutans lágu ekki fyrir fyrr en um helgina.”

Settu óásættanleg skilyrði

Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna, sem eru í meirihluta með Bjartri framtíð, og formaður bæjarráðs, segir minnihlutann sjálfan hafa valið að standa utan undirbúnings tillagna að breytingum þar sem þeir settu skilyrði sem ekki hafi verið hægt að ganga að.

Það hafi verið samhljóða samþykkt í bæjarstjórn í fyrrahaust að láta gera faglega úttekt á rekstri sveitarfélagsins og stjórnskipulagi, sem var gert. Við vinnslu gagnanna hafi skilyrðin komið fram.

„Minnihlutinn vildi að allar tillögur og hugmyndir ráðgjafa yrði birt á vefnum. Þar koma jafnvel fram viðkvæmar persónulegar upplýsingar, bæði um stofnanir og starfsmenn og við töldum að það væri of langt gengið”, sagði Rósa í fréttum Stöðvarinnar. 

Í anda kosningaloforða

„Við töldum eðlilegt að skýrslurnar yrðu birtar í heild sinni. Þær fengju lýðræðislega umfjöllun og kynningu. Ekki bara í bæjarstjórn heldur í samfélaginu öllu,” segir Gunnar um þá kröfu að birta öll gögn. Hann segir kröfuna í anda þess sem lofað hafði verið af öllum flokkum fyrir kosningar.

Aðspurð hvers vegna svo mikið hafi legið á að halda aukabæjarstjórnarfund í morgun sagði Rósa að það hafi verið markmið að afgreiða tillögur fyrir sumarfrí og fundurinn hafi verið boðaður með þriggja sólarhringa fyrirvara, sem sé samkvæmt reglum.

Einhverjir munu missa störf sín

Óljóst er hve margir starfsmenn innan stjórnsýslunnar munu mögulega missa störf sín vegna breytinganna. Rósa segir það koma í ljós á næstu dögum.

„Það er verið að vinna í því að koma í veg fyrir að fólk missi vinnuna við þessar breytingar. Óhjákvæmilega mun það þó í einhverjum tilvikum leiða til þess.”


Tengdar fréttir

Uppsagnir á aukafundi bæjarstjórnar

Segja á upp fólki og bæjarstjóri mótar reglur um samskipti bæjarfulltrúa við starfsmenn bæjarins samkvæmt tillögum meirihluta bæjarstjórnar. Bæjarfulltrúi VG telur þetta "geggjuð vinnubrögð“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×