Innlent

Minni skjálftavirkni í Kötlu en viðvaranir og lokanir enn í gildi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skjálftavirkni í Kötlu var heldur minni í nótt en sólarhringinn þar á undan.
Skjálftavirkni í Kötlu var heldur minni í nótt en sólarhringinn þar á undan. vísir/vilhelm
Heldur hefur dregið úr skjálftavirkni í Kötlu frá því sem var í gær að sögn Sigþrúðar Ármannsdóttur náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands. Óvissustigi vegna skjálftanna var lýst yfir í gær og er það enn í gildi. 

Á vef Veðurstofunnar sést að í nótt og í morgun hefur ekki mælst neinn skjálfti yfir þremur en í fyrrinótt og gærdag voru nokkrir stórir skjálftar yfir þremur.

„Það hefur róast mikið frá því í gær og nóttin var svona tiltölulega róleg þannig að það sem af er þessum degi hafa komið svona rúmlega 20 skjálftar á þessu svæði inn í sjálfvirka kerfið í gær voru þeir um 230,“ segir Sigþrúður í samtali við fréttastofu.

Hún segir ekkert hægt að segja til um framhaldið. Hugsanlega geti þetta lognast út af eins og hún orðar það eða tekið sig upp aftur.

Að sögn Sigþrúðar verða allar viðvaranir og lokanir áfram um helgina en Vísindamannaráð mun koma saman til fundar á mánudag klukkan níu.

Eftirfarandi atburðarrásir eru taldar líklegastar af Almannavarnarnefnd.

1. Jarðskjálftahrinan hættir án frekari atburða.

2. Jökulhlaup kemur fram í ám vegna minniháttar eldgoss eða tæmingar á jarðhitakötlum.

3. Eldgos hefst í Mýrdalsjökli sem nær að brjóta sér leið í gegnum jökulinn. Afleiðingar gætu verið jökulhlaup í ám sem renna frá jöklinum ásamt öskufalli.


Tengdar fréttir

Óvissustigi lýst yfir vegna Kötlu

Ríkislögreglustjórinn í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi hefur lýst yfir óvissustigi vegna jarðskjálfta í Mýrdalsjökli




Fleiri fréttir

Sjá meira


×