Erlent

Minnast þeirra sem létust í flóðbylgjunni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá minningarathöfn í Aceh-sýslu í Indónesíu.
Frá minningarathöfn í Aceh-sýslu í Indónesíu. Vísir/Getty
Þess er nú minnst í Indónesíu, Tælandi, Srí Lanka og víðar að 10 ár eru liðin frá því að gríðarstór flóðbylgja varð rúmlega 200.000 manns að bana en hún skall á ströndum nokkurra landa í kjölfar jarðskjálfta sem varð á Indlandshafi á öðrum degi jóla 2004.

Í Aceh-sýslu í Indónesíu, sem varð einna verst úti í flóðbylgjunni, minntist varaforseti landsins, Jusuf Kalla, þeirra sem létust í flóðbylgjunni. Hann þakkaði sjálfboðaliðum, bæði frá Indónesíu og heiminum öllum, fyrir að hjálpa fólkinu í Aceh við að byggja líf sitt upp að nýju eftir náttúruhamfarirnar.

Ýmsir viðburðir eru einnig í Tælandi í dag til minningar um þá sem létust. Til að mynda hefur fólk komið saman í litlu fiskiþorpi, Ban Nam Khem, og lagt blóm við vegg þar sem rituð eru nöfn þeirra sem létust, en þorpið gjöreyðilagðist í flóðbylgjunni. Alls létust 5.500 manns í Tælandi, helmingurinn erlendir ferðamenn.

Jarðskjálftinn sem varð úti á Indlandshafi var 9,1 að stærð og varði í um 10 sekúndur. Flóðbylgjan sem fylgdi á eftir olli gríðarlegri eyðileggingu en ölduhæð hennar náði um 20-30 metrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×