Innlent

Minkur drepinn með malarskóflu á Selfossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Mikið gekk á Selfossi síðdegis í dag þegar lögreglan var kölluð til að handsama mink, sem fannst í ruslatunnu í bænum. Eftir mikinn eltingarleik laganna varða með pappakassa var minkurinn drepinn með malarskóflu.
 
Gestir sem voru í Selfossbíói í dag urðu fyrst varir við minkinn við stóra ruslatunnu við Subway sem er við hliðina á bíóinu. Hringt var á lögregluna sem kom strax á staðinn og þá byrjaði ballið, minkurinn slapp úr ruslatunnunni og hófst þá strax eltingarleikur við minkinn um stórt plan við Subway, niður í kjallara við Hótel Selfossi. Á tímabili hélt fréttamaður að um falda myndavél væri að ræða, æsingurinn og lætin voru svo mikil, allir ætluðu að ná minknum.
 
Næstum því tókst að króa minkinn af í tröppum hótelsins en hann komst  undan og var þá hlaupið eftir honum að palli við Selfossbíó. Þar munaði minnstu að Skúli Helgason, minkabani frá Ósabakka á Skeiðum næði dýrinu en allt kom fyrir ekki, minkurinn stökk niður af bíópallinum og var fallið nokkrir metrar. Hann hélt þó áfram að reyna að flýja en náðist síðan við einn vegg hótelsins þar sem Skúli drap hann með malarskóflu.

„Maður lendir í ýmsu en ég hef þó ekki lent í að veiða mink innanbæjar. Þetta er búrdýr, liturinn og hegðunin sýndi það, hann fór ekki í vatnið eins og allir minkar gera“, segir Skúli en þá á hann við Ölfusá sem er nokkrum metrum frá þar sem minkurinn var.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×