Íslenski boltinn

Milos: Sjúkrakerfið á Íslandi í ruglinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Milos, til hægri, með Ólafi Þórðarsyni.
Milos, til hægri, með Ólafi Þórðarsyni. Vísir/Daníel
Ívar Örn Jónsson, leikmaður Víkings, er á batavegi eftir að hafa fengið heilahristing í leik liðsins gegn Fjölni í gær.

Ívar var tekinn af velli í fyrri hálfleik eftir að hafa fengið höfuðhögg. Hann var fluttur upp á sjúkrahús eftir að hafa kvartað undan ógleði.

„Hann þarf að halda kyrru fyrir í 2-3 daga og þá getur hann byrjað að æfa,“ sagði Milos Milojevic, aðstoðarþjálfari Víkings, í samtali við Vísi í dag.

Ívar Örn í leiknum í gær.Vísir/Arnþór
„Þetta virðist því ekki hafa verið alvarlegt en til að gæta varúðar var ákveðið að senda hann strax upp á spítala í gær. Hann kvartaði undan ógleði og var dofinn í vinstri hluta líkamans. Þá var hann með mikinn hausverk,“ bætir Milos við.

Hann furðar sig þó á vinnbrögðum lækna á sjúkrahúsinu í gær. „Þeir gerðu í raun ekkert. Ég fékk sjálfur höfuðhögg þegar ég var að keppa í futsal í Serbíu í fyrra og þá fékk ég að minnsta kosti lyf í æð sem kemur í veg fyrir heilabólgu. En læknarnir skoðuðu hann bara í gær og gerðu ekkert.“

Todor Hristov spilaði með Víkingum fyrr í sumar.Vísir/Vilhelm
Búlgarinn Todor Hristov sem hóf tímabilið með Víkingum er nú hættur að spila með liðinu en Ólafur Þórðarson, þjálfari liðsins, sagði eftir leikinn í gær að hann hefið ekki staðið undir væntingum.

Milos segir þó að Hristov hafi átt við ökklameiðsli að stríða og að hann hafi ekki fengið almennilega greiningu fyrr en eftir að hann kom heim til Búlgaríu.

„Læknar og sjúkraþjálfarar hér á Íslandi skoðuðu hann og sögðu að hann væri ekki brotinn. Hann væri tognaður eða eitthvað slíkt. Hann sendi mér svo niðurstöðu úr myndatöku sem hann fór í og kom þá í ljós að hann væri brotinn,“ sagði Milos. „Hann þarf að fara í aðgerð.“

„Ég er útlendingur og allt það en verð að fá að segja eins og er - sjúkrakerfið á Íslandi er í ruglinu. Maður þarf að deyja til að fá meðhöndlun.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×