Erlent

Milo Yiannopoulos: Umdeildasti maður Internetsins

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Milo Yiannopoulos er nafn sem hefur verið mikið á milli tannanna á fólki síðustu misseri. En hver er hann?
Milo Yiannopoulos er nafn sem hefur verið mikið á milli tannanna á fólki síðustu misseri. En hver er hann? Vísir/Getty
Milo Yiannopoulos er nafn sem hefur verið mikið á milli tannanna á fólki síðustu misseri. Nú síðast um helgina eftir að myndband fór í dreifingu á netinu þar sem hann virðist leggja blessun sína yfir barnaníð.

Í myndbandi sem birt var á dögunum segir Yiannopolous að sambönd milli ungra drengja og eldri manna geti verið „mótandi sambönd“ þar sem „þessir eldri menn hjálpa þessum ungu drengjum að uppgötva hverjir þeir eru.“

Yiannopoulos vill meina að um breska kaldhæðni, ögrun og gálgahúmor hafi verið að ræða og kenndi lélegri eftirvinnslu um að ummæli hans hafi misskilist. „Þetta er andstyggilegur og ógeðslegur glæpur, mögulega sá versti,“ skrifaði Yiannopulos á Facebook síðu sína eftir að myndbandið fór í dreifingu.

Í kjölfar ummælanna hefur verið hætt við útgáfu ævisögu hans og hætt hefur verið við ræðu hans á ráðstefnu í Bandaríkjunum þar sem Donald Trump bandaríkjaforseti verður gestur.

Myndskeiðið með ummælunum umdeildu má sjá hér fyrir neðan.

En hver er Milo Yiannopoulos?

Milo Yiannopoulos er breskur rithöfundur, blaðamaður og ritstjóri. Hann er 33 ára gamall sonur grísks föður og breskrar móður. Hann ólst upp í bænum Kent á Englandi en er nú búsettur í Bandaríkjunum. 

Yiannopoulos gekk í Simon Langton drengjaskólann í Canterbury. Seinna nam hann við háskólann í Manchester og Cambridge háskóla en hætti námi í báðum skólum. Hann hlaut fyrst alþjóðlega athygli í kjölfar Gamergate hneykslisins, þar sem konur í tölvuleikjaiðnaði urðu fyrir aðkasti. 

Hann hefur safnað sér aðdáendum sem kalla hann „tröllakónginn“ fyrir ögrandi hegðun á netinu og er YouTube síða hans með rúmlega 550 þúsund fylgjendur.

Í júlí árið 2016 var hann bannaður af samfélagsmiðlinum Twitter fyrir að „hvetja til eða taka þátt í markvissum svívirðingum eða áreiti á öðrum.“ Bannið kom í kjölfar þess að hann áreitti Leslie Jones, svarta leikkonu sem var ein fjögurra kvenna í endurgerð Ghostbusters kvikmyndanna. Í kjölfarið varð Jones fyrir snjóflóði svívirðinga á Twitter frá fylgjendum Yiannopoulos. 

Þá hefur hann einnig verið gagnrýndur fyrir ummæli sín um transfólk, múslima, femínista, Black Lives Matter hreyfinguna og samkynhneigða, jafnvel þó hann sé sjálfur samkynhneigður.

Milo Yiannopoulos á blaðamannafundi í kjölfar árásanna á skemmtistaðinn Pulse í Orlando síðasta sumar.Vísir/Getty
Alt-right og Breitbart News

Milo er í oft tengdur við alt-right hreyfinguna, eða hitt hægrið, þjóðernissinnaða hreyfingu sem andmælir pólitískum rétttrúnaði og femínisma. Hann segist þó sjálfur ekki tilheyra hreyfingunni en segir hana „kraftmikla og hressandi.“ 

Hann stofnaði vefritið The Kernel árið 2011 og seldi það árið 2014 eftir að hafa safnað upp skuldum og lent í klandri fyrir að borga fólki ekki fyrir að skrifa á vefinn.

Frá árinu 2015 hefur hann verið ritstjóri hjá Breitbart News, íhaldssömu bandarísku vefriti sem hefur meðal annars verið gagnrýnt fyrir kynþáttahatur og kvenfyrirlitningu. Yiannopoulos hefur skrifað pistla eins og „Getnaðarvarnir gera konur óaðlaðandi og geðveikar“ og „Hvort myndirðu frekar vilja að barnið þitt væri femínisti eða með krabbamein?“

Breitbart News hefur meðal annars tengsl við ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Stephen K. Bannon, helsti ráðgjafi Trump, var einn forsprakka vefritsins og undir stjórn hans varð síðan þekkt fyrir íhaldssemi og mikla hægri stefnu. Í kosningabaráttunni vann Yiannopoulos fyrir Trump og var í forsvari fyrir hóp samkynhneigðra sem studdi Trump.

Þá var Trump harðorður í garð Berkeley háskóla í Kaliforníu eftir að hætt var við heimsókn Yioannopoulos í kjölfar mótmæla nemenda. Trump ýjaði meðal annars að því að skólinn fengi ekki opinbert fé vegna mótmælanna.

Þegar útgefandinn Simon & Schuster tilkynntu um útgáfu ævisögu hans í desember síðastliðnum var fyrirtækið sakað um að fjármagna og styðja hatursorðræðu. Útgáfa ævisögu hans, Dangerous, var áætluð seinna á þessu ári.

Á mánudag var tilkynnt að hætt væri við útgáfu bókarinnar eftir að meira en 100 aðrir rithöfundar hjá forlaginu höfðu mótmælt útgáfunni. 

Síðastliðinn sunnudag birt Yiannopoulos færslu á Facebook síðu sinni með yfirskriftinni „skýring fyrir hálfvita“ þar sem hann reyndi að útskýra að ummæli sín um barnaníð hefðu misskilist og afneitaði barnaníð. Færsluna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×