Erlent

Milljónir þurfa hæli

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hópur flóttafólks kominn til hafnar í Augusta á Sikiley eftir að hafa verið bjargað um borð í ítalskt herskip.
Hópur flóttafólks kominn til hafnar í Augusta á Sikiley eftir að hafa verið bjargað um borð í ítalskt herskip. fréttablaðið/EPA
Auðugu ríkin á norðurhveli jarðar þurfa að sameinast um að taka á móti milljón flóttamönnum frá Sýrlandi á næstu fimm árum. Þetta segir Francois Crépeau, sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna í mannréttindum flóttamanna.

Í viðtali við breska dagblaðið The Guardian segir Crépeau að þetta eigi að vera vel viðráðanlegt.

„Fyrir lönd á borð við Bretland myndi þetta líklega þýða um það bil 14.000 Sýrlendingar á ári í fimm ár. Fyrir Kanada yrðu það innan við 9.000 manns á ári í fimm ár – sem er eins og dropi í hafið.“

Crépeau segir flóttamannastrauminn frá Sýrlandi, vegna borgarastyrjaldarinnar þar undanfarin fjögur ár, vera helstu rót hins sívaxandi straums flóttamanna til Evrópu.

Það sem af er þessu ári hafa meira en 1.750 manns drukknað í Miðjarðahafinu á mistraustum og yfirfullum bátum, sem sigla átti til ríkja Evrópusambandsins en hvolfdi áður en áfangastað var náð.

Evrópusambandið hefur sætt gagnrýni fyrir að hafa brugðist seint og illa við þessum vanda, en á mánudaginn ákváðu utanríkisráðherrar þess á fundi í Brussel að gera bragarbót.

Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu, hvetur Evrópuríki reyndar til þess að fara að dæmi Ástralíu og senda alla flóttamannabáta jafnharðan til baka. Það sé eina leiðin til að koma í veg fyrir að flóttafólk drukkni í stórum stíl í Miðjarðarhafinu.

Ástralía hefur undanfarin ár tekið afar harkalega á flóttafólki. Öllum bátum er snúið við eða þeir dregnir til baka, en þegar því verður ekki viðkomið er flóttafólkið sent í einangrunarbúðir á eyjum í Kyrrahafinu. Ekkert þessa fólks fær neina von um að mega nokkurn tíma setjast að í Ástralíu sem flóttamaður. Þetta hefur haft þau áhrif að flóttamannastraumurinn á bátum til Ástralíu hefur nánast stöðvast.

Þessi ráðlegging ástralska forsætisráðherrans hefur ekki hlotið mikinn hljómgrunn meðal evrópskra ráðamanna.

Mikil óvissa ríkir enn um útfærslu Evrópusambandsins á þeim aðgerðum, sem samþykkt var að ráðast í á mánudaginn. Meðal annars var samþykkt að Ítalía og önnur Miðjarðarhafsríki yrðu ekki látin sitja ein uppi með vandann, heldur myndu önnur aðildarríki bjóðast til að taka við fleiri flóttamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×