Erlent

Milljónir innflytjenda fá atvinnuleyfi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Barack Obama kynnir aðgerðir sínar í innflytjendamálum í sjónvarpsávarpi úr Hvíta húsinu í fyrrinótt.
Barack Obama kynnir aðgerðir sínar í innflytjendamálum í sjónvarpsávarpi úr Hvíta húsinu í fyrrinótt. Vísir/AP
Barack Obama Bandaríkjaforseti gladdi hjörtu nærri fimm milljóna innflytjenda með því að gera þeim kleift að fá atvinnuleyfi í Bandaríkjunum þrátt fyrir að dveljast þar ólöglega.

Jafnframt hrelldi hann andstæðinga sína í Repúblikanaflokknum, sem leita nú allra leiða til þess að ógilda ákvörðunina.

Obama hefur árum saman reynt að fá Bandaríkjaþing til þess að samþykkja víðtækar breytingar á innflytjendalöggjöf landsins. Öldungadeildin, þar sem flokksbræður hans hafa verið í meirihluta, hefur samþykkt frumvarp um það, en repúblikanar, sem eru í meirihluta í fulltrúadeildinni, hafa ekki viljað vera með.

Innflytjendur og baráttufólk fyrir réttindum þeirra hafa ákaft fagnað ákvörðun forsetans, sem kynnt var fyrirvaralítið í fyrrinótt.

Efnahagsráðgjafar forsetans fullyrða að þessar aðgerðir muni hafa margvísleg jákvæð áhrif á efnahagslíf landsins, meðal annars muni meðallaun hækka í kjölfarið.

Repúblikanar brugðust hins vegar ókvæða við og segja ákvörðun forsetans ólöglega, þar sem þetta sé einhliða ákvörðun hans en ekki þingsins. Áhrifamenn í Repúblikanaflokknum eru að íhuga að fara í mál fyrir dómstólum gegn ákvörðun forsetans.

Repúblikaninn John Boehner, sem er þingforseti neðri deildar Bandaríkjaþings, sagði að forsetinn væri „vísvitandi að eyðileggja alla möguleika á því að ná fram samkomulagi beggja flokka um endurbæturnar, sem hann segist vilja gera“.

Jafnframt sagði hann að þingið myndi „ekki sitja aðgerðarlaust hjá á meðan forsetinn grefur undan réttarríkinu“.

Ákvörðun Bandaríkjaforseta nær til nærri fimm milljóna manna í heildina, sem nú fá atvinnuleyfi og þurfa ekki að óttast að verða reknir úr landi lengur.

Þar munar mest um 4,1 milljón foreldra, sem dveljast ólöglega í Bandaríkjunum en hafa búið þar í fimm ár eða lengur og eignast þar börn, sem þar með eru bandarískir ríkisborgarar eða hafa varanlegt dvalarleyfi þar. Breytir þá engu hvort börnin eru komin á fullorðinsaldur.

Nýju reglurnar gilda einnig um fólk, sem kom ólöglega til Bandaríkjanna á barnsaldri. Auk þess verður erfiðara en nú er að reka fólk úr landi, þótt það hafi komið ólöglega til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×