Innlent

Milljónir gerðar upptækar í umfangsmiklu steramáli

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hluti þeirra efna sem lögreglan gerði upptæk í aðgerðum sínum.
Hluti þeirra efna sem lögreglan gerði upptæk í aðgerðum sínum. mynd/lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að handtökur og húsleitir sem gerðar voru í fyrradag séu aðeins byrjunin á umfangsmikilli rannsókn lögreglunnar í steramáli sem greint var frá í gær. Mikil vinna sé nú fram undan við að greina þau gögn sem hald var lagt á.

Til að mynda þarf að greina og mæla sterana sem voru gerðir upptækir en að sögn Aldísar voru þeir aðallega í töflu-og duftformi. Ekki liggur fyrir um hversu mikið magn er að ræða en einnig var lagt hald á reiðufé sem hljóp á 3-5 milljónum. Þá gerði lögreglan einnig upptæk búnað og tæki fyrir framleiðslu stera.

Alls voru níu Íslendingar handteknir í aðgerðum lögreglu en þeim var öllum sleppt að loknum yfirheyrslum. Aldís segir að rannsóknin haldi nú áfram; yfirheyra þurfi fólk aftur og jafnvel einhverja aðra sem kunni að tengjast málinu.

Aðgerðir íslenskra lögregluyfirvalda voru hluti af alþjóðlegri lögregluaðgerð (Operation Underground) undir forystu Europol og bandarísku fíkniefnalögreglunnar, DEA. Í fyrradag voru því samtímis í mörgum öðrum löndum framkvæmdar handtökur og húsleitir þar sem einnig var lagt hald á stera. Ráðist var gegn innflutningi stera frá framleiðendum í Kína, en lögreglan segir þá vera mjög stórtæka á þessu sviði.

Fram kom í tilkynningu frá Europol að lögreglan hér á landi hefði gegnt lykilhlutverki í því að hægt var að rekja fjármagnsflæði til Kína. Aldís segir að lögregluyfirvöld erlendis hafi nýtt sér aðferðir sem lögreglan hér á landi notar til að rekja flæði fjármagns út úr landinu.


Tengdar fréttir

Níu handteknir í umfangsmiklu steramáli

Lögreglan lagði hald á mikið magn af sterum í aðgerðum sínum sem voru unnar í samstarfi við Europol og bandarísku fíkniefnalögregluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×