Erlent

Milljón manns hafa flúið heimili sín í Úkraínu

Atli Ísleifsson skrifar
Frá ársbyrjun hafa 814 þúsund Úkraínumanna flúið yfir landamælin til Rússlands. Flestir þeirra eru af rússneskum uppruna.
Frá ársbyrjun hafa 814 þúsund Úkraínumanna flúið yfir landamælin til Rússlands. Flestir þeirra eru af rússneskum uppruna. Vísir/AFP
Rúmlega milljón manns hafa flúið heimili sín vegna deilunnar í austurhluta Úkraínu. Deilan hefur stigmagnast síðustu vikurnar og segir talsmaður Sameinuðu þjóðanna að síðustu þrjár vikur hefur fjöldi þeirra sem eru á vergangi innan landamæra Úkraínu tvöfaldast í 260 þúsund.

Vincent Cochetel, fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, segir að frá ársbyrjun hafi 814 þúsund manns einnig flúið yfir landamælin til Rússlands. Segir hann þörfina á mannúðaraðstoð á svæðinu einungis hafa aukist og verði svo áfram.

Aðskilnaðarsinnar á bandi Rússlandsstjórnar hafa átt í átökum við úkraínska stjórnarherinn síðan í apríl fyrr á þessu ári. Lýstu aðskilnaðarsinnar í Donetsk og Luhansk héraði yfir sjálfstæði í kjölfar þess að Rússar innlimuðu Krímskaga í mars.

Um 2.600 manns hafa látið lítið í átökunum og mörg þúsund særst.

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að úkraínski herinn hafi setið um borgina Luhansk síðastliðinn mánuð og hefur reynst erfitt að koma matvælum og vatni til borgarinnar.

Úkraínuher hefur þó víðs vegar neyðst til að hörfa að undanförnu þar sem aðskilnaðarsinnar hafa sótt fram. Segja talsmenn úkraínska hersins að þeir hafi neyðst til að hverfa frá flugvelli Luhansk-borgar eftir að hafa orðið fyrir árás af hendi „rússneskra skriðdreka“.

Aðskilnaðarsinnar hafa sömuleiðis sótt fram í Dónetsk-héraði, í kringum borgina Dónetsk og sunnar, nærri hafnarborginni Mariupol.

Flestir þeirra Úkraínumanna sem flúið hafa land eru af rússneskum uppruna og flúið yfir landamærin til Rússlands. Þó hafa fjölmargir einnig flúið til Svíþjóðar, Þýskalands, Póllands, Hvíta-Rússlands og Eystrasaltsríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×