Innlent

Milljarður sparist með breyttu bótakerfi

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Sigurður Bessason formaður Eflingar segir að aldrei í sögunni hafi stjórnvöld farið í jafn vanhugsaðar og hættulegar aðgerðir gegn atvinnulausum. Stórum hópi fólks sé vísað út á guð og gaddinn með nokkra daga fyrirvara. Sigurður segir að þessar breytingar hafi verið gerðar þrátt fyrir aðvaranir og ítrekuð mótmæli verkalýðshreyfingarinnar.

Formaður velferðarnefndar Reykjavíkur segir að ríkið sé að velta um einum milljarði yfir á borgina með breytingum á atvinnuleysisbótum.

„Þessi kostnaður sem ríkið sparar sér er um einn milljarður króna á landsvísu. Þetta verða um 1500 manns sem detta af bótum og við gerum ráð fyrir að um tólfhundruð lendi á borginni, þar af um 500 manns strax núna 1. janúar. Fjárhagsaðstoðin er aðeins lægri en atvinnuleysisbætur en það munar ekki miklu þar á,“ segir Elín Sigurðardóttir, formaður velferðarnefndar.

„Mér hugnast þetta alveg hryllilega. Þetta er engu líkt. Það hafa áður verið gerðar breytingar á atvinnuleysisbótakerfinu en þá var það gert með góðum fyrirvara. Þá sáu menn hvert stefndi og Reykjavíkurborg gat gert ráðstafanir þar sem um helmingur átti rétt á bótum. Hinir urðu einfaldlega undir,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar.

Sigurður bætir því við að breytingarnar núna séu gerðar með enn verri og harkalegri hætti en áður. Fólk hafi fengið bréf með tíu daga fyrirvara, rétt fyrir áramót, um að réttur þeirra til bóta sé enginn.

„Stjórnmálamenn virðast ekki hugsa það þannig að þarna séu einstaklingar undir heldur eingöngu peningar sem hægt sé að spara með þessum hætti. Það er klárt mál að fyrir hluta þessa hóps er ekkert sem bíður. Þessi áramót munu líða hjá þeim og síðan tekur við alger óvissutími,“ segir Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×