Innlent

Milljarður aukalega í Landspítalann og 400 milljónir í húsaleigubætur

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Ákveðið hefur verið að veita sérstök framlög til rekstrar og stofnkostnaðar heilbrigðisstofnana um 2.125 milljónir króna. Langmest, eða milljarður, fer til Landspítalans. 400 milljónum verður einnig varið aukalega til húsaleigubóta til að koma til móts við tekjulægstu leigjendur á húsnæðismarkaði.

Þetta er meðal breytinga á fjárlagafrumvarpi næsta árs sem kynntar voru í fjárlaganefnd í dag. Breytingarnar hafa verið birtar á vef fjármálaráðuneytisins en þar kemur fram að 875 milljónum króna verði varið í hönnun meðferðakjarna nýs Landspítala. Auk þess hefur verið ákveðið að veita 100 milljónum króna til tækjakaupa á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

Breytingarnar fela einnig í sér minni þátttöku einstaklinga í lyfjakostnaði um 5 prósent með 150 milljóna króna aukinni greiðsluþátttöku ríkisins. 

Þá verða framlög til menntamála aukin um 767 milljónir króna. Þar fer stærstur hluti til háskóla, eða 617 milljónir króna. Vinnustaðanámssjóður fær einnig 150 milljónir króna og framlagið gert varanlegt. 

Til viðbótar verða framlög til sóknaráætlana landshluta, vegaframkvæmda, íþróttamála, Landhelgisgæslunnar, VIRK, lýðheilsu og brothættra byggða aukin.  

Ástæðan fyrir því að hægt er að verja auknu fé í þessi verkefni er svigrúm sem myndast hefur vegna batnandi afkomu ríkissjóðs og bjartari þjóðhagsspár, samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins. Þessi verkefni eru samkvæmt tilkynningunni sérstök áherslumál ríkisstjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×