Viðskipti innlent

Milljarða hagnaður skagfirska risans

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kaupfélag Skagfirðinga hefur aðsetur á Sauðárkróki. Umsvifin eru mikil, bæði á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs.
Kaupfélag Skagfirðinga hefur aðsetur á Sauðárkróki. Umsvifin eru mikil, bæði á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs.
Kaupfélag Skagfirðinga hagnaðist um 1.700 milljónir króna eftir skatta á síðasta ári, samkvæmt ársreikningi sem birtur var fyrr í mánuðinum. Það er þó töluvert minni hagnaður en árið á undan þegar hagnaðurinn nam næstum 2.300 milljónum króna. Kaupfélagið er fyrirferðarmikið í íslensku atvinnulífi. Eignir nema 32,2 milljörðum og eigið fé nemur 22,2 milljörðum. Þau fyrirtæki sem Kaupfélagið á hlut í eru staðsett víðs vegar um landið.

Kaupfélag Skagfirðinga hefur verið nokkuð til umræðu í vikunni vegna 10 prósenta hlutar sem félagið á í Mjólkursamsölunni. Að auki á Kaupfélagið Vogabæ ehf., sem er móðurfélag Mjólku.

Það eru einmitt þessi eignartengsl Kaupfélagsins við Mjólkursamsöluna og Mjólku sem eru aðdragandinn að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, þar sem Mjólkursamsalan var sektuð um 370 milljónir króna.

Í þeirri ákvörðun segir að samþjöppun á markaðnum og búvörulög leyfi Mjólkursamsölunni og Kaupfélaginu mjög nána viðskiptalega samvinnu. Sú ákvörðun Mjólkursamsölunnar að selja dótturfélagi Kaupfélagsins hrámjólk á betri kjörum en Mjólkurbúinu Kú hafi hins vegar verið ólögleg, eins og rakið hefur verið í fjölmiðlum.

Kaupfélag Skagfirðinga rekur meðal annars mjólkurafurðastöð, kjötafurðastöð, Kjarnann þjónustuverkstæði, dagvöru- og ferðamannaverslun í Skagafirði og verslunina Eyri, eftir því sem fram kemur á vefsíðu fyrirtækisins.

Verðmætasta eign félagsins er 100 prósenta hlutur í útgerðarfélaginu FISK-Seafood á Sauðárkróki. Það er fimmta stærsta útgerðarfélag á landinu, en bókfært virði þeirrar félagsins nemur tæplega 16,5 milljörðum króna. Hagnaður þess nam 1,3 milljörðum króna á síðasta ári. Útgerðarfélögin FISK-Seafood og Samherji keyptu saman 70 prósenta hlut í Olíufélagi Íslands árið 2012 og á FISK helming þess hlutar.

Þá á Kaupfélagið hlut í Fóðurblöndunni ehf. í Reykjavík sem nemur tæpum 970 milljónum króna. Aðrar eignir eru fjölmargar en minni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×