Erlent

Miklar loftárásir í Aleppo

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Aleppo.
Frá Aleppo. Vísir/AFP
Rússar gerðu miklar loftárásir á austurhluta Aleppo í dag þar sem uppreisnarmenn ráða ríkjum. Tólf borgarar eru sagðir hafa fallið og íbúðarhúsnæði urðu fyrir miklum skemmdum. Þá létust minnst fimm börn þegar uppreisnarmenn skutu á skóla í suðurhluta Sýrlands.

Stjórnarher Sýrlands tilkynnti, eftir að vopnahlé var afnumið í síðasta mánuði, áætlanir sínar um að reka uppreisnarmenn frá borginni. Harðar árásir hafa verið gerðar á hana síðan þá og hafa fjölmargir borgarar látið lífið.

Frakkar lögðu í gær fram ályktun í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um að loftárásir á borgina yrðu stöðvaðar en Rússar beittu neitunarvaldi sínu. Nú hefur Vladimir Putin, forseti Rússlands, hætt við fyrirhugaða ferð sína til Frakklands.

Francois Hollande, forseti Frakklands, sagði árásirnar á Aleppo vera stríðsglæp á sunnudaginn.

Blaðamaður AFP sá byggingu sem gjöreyðilagðist í loftárás í borginni. Þar voru Hvítu hjálmarnir svokölluðu að störfum og drógu þeir lík tveggja barna úr rústum hússins.

Hermenn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, hafa sótt fram í austurhluta borgarinnar. Minnst 290 manns, að mestu borgarar, hafa látið lífið frá því að sókn þeirra hófst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×