Handbolti

Mikkel Hansen skaut Snorra Stein af toppnum með stæl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen og Snorri Steinn Guðjónsson.
Mikkel Hansen og Snorri Steinn Guðjónsson. Vísir/EPA
Danska stórskyttan Mikkel Hansen skoraði fjórtán mörk fyrir Paris Saint-Germain í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í gær og er orðinn markahæsti leikmaður deildarinnar.

Hansen er kominn með níu marka forskot á íslenska leikstjórnandann Snorra Stein Guðjónsson sem var samt markahæsti leikmaður deildarinnar fyrir fimmtu umferðina.

Snorri Steinn var með fjögurra marka forskot á Hansen eftir fjóra leiki en náði aðeins að skora eitt mark úr níu skotum í jafnteflisleik Nimes á móti Créteil kvöldið áður.

Mikkel nýtti sér það og gott betur en Daninn öflugi skoraði 14 mörk úr aðeins 15 skotum í átta marka sigri Paris Saint-Germain á Chambéry. Níu af mörkum Hansen komu reyndar af vítalínunni.

Mikkel Hansen hefur skorað 51 mark í fyrstu fimm leikjum Parísarliðsins eða yfir tíu mörk að meðaltali í leik.

Snorri Steinn hefur nú skorað 42 mörk í fimm leikjum eða 8,4 mörk að meðaltali í leik. Hann var búinn að skora 11 mörk eða fleiri í þremur af fyrstu fjórum leikjum sínum.

Snorri Steinn er með eins marks forskot á manninn í þriðja sæti listans sem er Nemanja Ilic hjá Toulouse. Nemanja Ilic skoraði níu mörk í fimmtu umferðinni.

Ásgeir Örn Hallgrímsson, liðsfélagi Snorra Steins hjá Nimes, er næsthæstur af íslensku leikmönnunum í frönsku deildinni en hann er í 20. sæti með 22 mörk. Það er hægt að sjá markahæstu leikmenn með því að smella hér.


Tengdar fréttir

Snorri með stórleik í tapi Nimes

Paris Saint-Germain bar sigurorð af Nimes, 36-32, í 1. umferð frönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í kvöld.

Snorri markahæstur í Frakklandi

Snorri Steinn Guðjónsson er markahæsti leikmaður frönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta eftir fjórar umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×