Lífið

Mikilvægt að ganga hægt um gleðinnar dyr um verslunarmannahelgina

Nú styttist óðum í verslunarmannahelgina en helgin er þekkt fyrir rosalegan fjölda útihátíða.

Við báðum því nokkra einstaklinga að viðra skoðanir sínar á útihátíðum og taka afstöðu til þeirra. 

Kolfinna Kristófersdóttir fyrirsæta.Vísir/Valli
Vildi óska að minna væri um ofbeldi

„Ég er náttúrulega Vestmannaeyingur og hef því farið ansi oft á Þjóðhátíð,“ segir fyrirsætan Kolfinna Kristófersdóttir en hún segist líka vilja að hún hefði aldrei farið á neina aðra útihátíð en Þjóðhátíð yfir verslunarmannahelgina.

„Ég held samt að upplifunin af Þjóðhátíð sé allt öðruvísi ef þú ert frá Eyjum,“ segir hún. „Öll fjölskyldan mín er þarna og allir gömlu vinirnir þannig að þetta er allt annað en fyrir Reykvíkinga.“

Kolfinna hefur því virkilega gaman af Þjóðhátíðinni og segir að Vestmannaeyjar séu rosalega fallegur staður en hún hefur þó eitt út á hátíðina að setja. „Ég vildi óska þess að það væri ekki svona mikið ofbeldi á hátíðinni.“

Elliði Vignisson bæjarstjóri.
Gangið hægt um gleðinnar dyr

„Ég er hlynntur öllum þeim heilbrigðu skemmtunum og útihátíðum sem boðið er upp á,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, en sjálfur hefur hann 46 ára reynslu af Þjóðhátíð. 

„Mín reynsla er sú að það sem skiptir allra mestu máli er að bera ábyrgð á sjálfum sér og sínum. Það hvernig við göngum fram hefur áhrif á okkar velferð og velferð annarra,“ segir bæjarstjórinn.

„Fyrir þá sem eru gestkomandi skiptir miklu máli að vera undirbúnir, að kynna sér út á hvað hátíðin gengur og virða hefðir heimamanna. Svo á auðvitað að ganga hægt um gleðinnar dyr.“

Ágústa Eva Erlendsdóttir.Vísir/Valli
Mætir í kraftgallanum

„Ég er engan veginn útihátíðartýpa,“ segir leikkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir. „Þar sem ég er alin upp er svo heitt að ég get eiginlega ekki verið í miklum kulda,“ segir hún og hlær.

„Ég get því ekki sofið í tjaldi og í þau fáu skipti sem ég hef reynt þá hef ég annaðhvort vakið alla nóttina, sofið inni í bíl eða farið grátandi heim.“

Ágústa Eva segir það ekki á dagskránni að tjalda um verslunarmannahelgina heldur ætlar hún að halda sig heima í hlýjunni með fjölskyldunni. Ef hún myndi þó fara eitthvert þá segir hún að Þjóðhátíð í Eyjum yrði líklegast fyrir valinu.

„Kærastinn minn er ættaður þaðan og ég hef aldrei farið þannig að ég myndi örugglega mæta þangað og taka þetta alla leið,“ segir leikkonan hlæjandi. „Alveg í þremur kraftgöllum með landa í vasanum og sofa ekki neitt.“

María Rut Kristinsdóttir.Vísir/Valli
Vill vera á Vestfjörðum

„Ég fór á Mýrarboltann á Ísafirði en ég gisti alltaf í heimahúsi, ég er ekki mikið fyrir svona tjaldferðalög,“ segir María Rut Kristinsdóttir.

„Ég hef allavega aldrei farið á Þjóðhátíð, ég er alin upp á Vestfjörðum og þaðan er bara svo langt að fara á Þjóðhátíð,“ segir hún og hlær.

„Ég er líka með svona sjúkdóm, ég á mjög erfitt með að breyta til, þannig að það gæti alveg verið partur af því að ég vil alltaf hafa allt í föstum skorðum.“

María Rut segist vera reynslulítil þegar kemur að útihátíðum en hún fór samt á hátíðina Halló Akureyri þegar hún var sautján ára. „Það var brilljant en ég hef eiginlega ekki tjaldað síðan,“ segir hún.

„Ég nenni bara ekki að lenda í því að tjaldið mitt rifni niður, þá verð ég svo vonsvikin og leið.“

Eiríkur Björn Björgvinsson.Vísir/Vilhelm
Mikilvægt að fara aldrei yfir strikið

„Ég er almennt jákvæður gagnvart útihátíðum enda snúast þær um að fólk eigi að skemmta sér saman,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, en hann hefur góða reynslu af útihátíðum og þá sérstaklega á Akureyri þar sem hann hefur starfað sem bæjarstjóri frá árinu 2010.

„Það sem skiptir höfuðmáli er að fólk taki tillit hvert til annars, ekki síst til þeirra sem dragast óvart inn í útihátíðarstemninguna eins og margir íbúar Akureyrar.“

Eiríkur Björn segir að útihátíðir eigi sér ríka hefð á Íslandi enda hafa margar íslenskar útihátíðir verið haldnar í tugi ára. 

„Það er þó mikilvægt að stilla öllu í hóf og fara aldrei yfir strikið.“


Tengdar fréttir

Hvað gera verslunarmenn um verslunarmannahelgi?

Blaðamaður Fréttablaðsins tók sig til og hringdi í nokkra hressa verslunarmenn og forvitnaðist um hvernig helgin, sem er jú tileinkuð þeim, færi fram og hvað þeir ætluðu sér að gera yfir fyrrnefnda helgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×