Innlent

Mikilvægt að foreldrar ræði við börn sín um Birnu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vigfús Bjarni Albertsson
Vigfús Bjarni Albertsson Vísir/Stefán
Séra Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahúsprestur, segir að það sé mikilvægt að foreldrar setjist niður með börnum sínum og unglingum til að ræða mál Birnu Brjánsdóttur.

„Ég lít svo á að það sé ekki lausn að leyna þeim þessum raunveruleika. Þau munu heyra hann annarsstaðar frá og þá er miklu betra að við fullorðna fólkið stjórnum þeirri umræðu,“ segir Vigfús í samtali við Vísi.

Hann segir að það sé mikilvægt að fullorðna fólkið, foreldrar, kennarar og aðrir fari í gegnum málið með börnunum svo þau séu ekki sjálf að fylla upp í eyðurnar. Hann segir að það sé mikilvægt að talað sé skýrt um málið við börnin.

„Þessi umræða er út um allt í samfélaginu og það er fullt af krökkum sem ekki hafa fengið tækifærið til að ræða málin við foreldra sína,“ segir Vigfús sem bendir á að börnin muni alltaf geta sjálf í eyðurnar fái þau ekki upplýsingar frá foreldrum sínum.

Vigfús bendir á að tilfinningarnar sem spretti upp vegna þessa máls séu margvíslegar og mikilvægt sé að talað sé um þær við börnin.

„Það er mikilvægt að tala um tilfinningarnar í þessu máli, tala um hluti eins og sorgina og samúðina sem fylgja málinu og útskýra þessar tilfinningar,“ segir Vigfús sem segir að krakkar viti kannski ekkert alltaf endilega hvað þessi orð merkja í raun og veru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×