Innlent

„Mikilvægt að bænarorðin hljómi í almannarýminu“

Atli Ísleifsson skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir biskup.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup. Vísir/Anton
„Þrátt fyrir ýmislegt sem haldið er fram um áhugaleysi fólks gagnvart kirkjunni er ljóst að almenningur í þessu landi er því fylgjandi að erindi kirkjunnar haldi áfram að heyrast og boðskapurinn haldi áfram að lifa.“ Þetta sagði Agnes M. Sigurðardóttir í ræðu sinni á kirkjuþingi sem sett var í Grensáskirkju í morgun.

Agnes varði hluta ræðu sinnar í að fjalla um kirkjulega dagskrárliði í Ríkisútvarpinu sem mikið hefur verið fjallað um síðustu mánuði.

„Nýjasta dæmið er þegar fréttir bárust af því að fella ætti úr dagskrá Ríkisútvarpsins daglegar bænir. Morgunbænir hafa verið í útvarpi allra landsmanna nánast frá byrjun sem og guðsþjónustur á sunnudögum. Kvöldbænirnar hafa hljómað frá gosinu í Vestmannaeyjum árið 1973 og var það dyggur hlustandi útvarpsins sem fór fram á það í fyrstu að farið væri að ákalla guð í bæn á öldum ljósvakans þegar allar bjargir voru bannaðar og höfnin að lokast. Með hjálp góðra manna var orðið við þessari bón og var sá háttur hafður á næstu fjörutíu árin. Þá var tilefnið gleymt og þörfin farin að mati ráðamanna. Við þetta vildi margir ekki una og var þessu mótmælt harðlega eins og kunnugt er.“

Biskup sagðist af þessu tilefni hafa sent út tilkynningu þar sem sagði að eitt af hlutverkum þjóðkirkjunnar væri að standa vörð um kristinn boðskap og gildi í þjóðfélaginu.

„Það er ekki hlutverk hennar að setja saman dagskrá Ríkisútvarpsins þótt útvarpið og kirkjan eigi gott samstarf um skipulag og framkvæmd nokkurra dagskrárliða svo sem Útvarpsguðsþjónustu, Morgunbænar, Morgunandaktar og Orðs kvöldsins.

Í umræðum um breytingar á dagskrá Rásar 1 áttum við Magnús Geir Þórðarson samskipti um hvernig breytingarnar snertu áðurnefnda dagskrárliði. Í samtölum okkar kom ég því á framfæri að mér þætti það miður að ekki væri rými í nýrri dagskrá fyrir bæði Orð kvöldsins og Morgunbæn á þeim tímum sem þessir liðir hafa verið. Samkvæmt mínum skilningi er það í takt við hrynjandi dagsins, árstíðanna og lífsins að hafa bæn í upphafi og lok dags. Það er mikilvægt að bænarorðin hljómi í almannarýminu og þar gegnir Ríkisútvarpið leiðandi hlutverki. Ég vil með þessum orðum hvetja útvarpsstjóra til að leita allra leiða til að skapa rými í dagskrá Rásar 1 fyrir kvöldbæn.“

Biskup sagði þetta hitamál í kringum bænamálið í Ríkisútvarpinu sýna að fólki væri ekki sama. „Ef til vill er sumum ofboðið hvernig reynt er að koma í veg fyrir að trúarboðskapur og bænamál heyrist í þjóðfélagi okkar,“ sagði Agnes í ræðu sinni.

Agnes minntist jafnframt á að kirkjuráð hafi fundið mikinn velvilja hjá alþingismönnum sem sitja í samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar og vilja þeirra til að standa við gerða samninga og lög er varða kirkjuna. „Því miður hefur það ekki verið svo hin síðustu ár, eins og fram hefur komið, enda er fjárhagsstaða hinna 270 sókna landsins komin niður fyrir þolmörk og þjóðkirkjan á í vanda við að standa við þjónustuskyldur sínar við þjóðina.“

Hlýða má á ræðu biskups í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Efast ekki um að fólk eigi eftir að sakna bænanna

Dagskrárstjóri Rásar eitt segir litla hlustun á bænir. Dómkirkjuprestur segir bænalesturinn þjónustu við fólkið í landinu. Formaður Landssambands eldri borgara vill að biskup og prestar landsins mótmæli.

Afhentu útvarpsstjóra bænaskjal og bænabók

Nokkur fjöldi fólks safnaðist saman við Útvarpshúsið í Efstaleiti klukkan 7:30 í morgnun til þess að þakka útvarpsstjóra og hvetja hann til að halda áfram með dagskrárliðinn Orð kvöldsins í þágu eldri borgara.

Bænirnar hverfa af RÚV: "Áfall fyrir kristindóminn í landinu“

Vígslubiskupinn í Skálholti er afar óhress með Ríkisútvarpið fyrir að ætli að fella niður morgunbæn, morgunandakt og orð kvöldsins á Rás eitt í lok mánaðarins. "Afar lítil hlustun á þessa dagskrárliði“, segir dagskrárstjóri rásarinnar.

Bænirnar verða áfram á RÚV

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, hefur tekið þá ákvörðun að halda áfram með dagskráliðina Orð kvöldsins og Morgunbæn á Rás 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×