Heilsa

Mikilvægi jákvæðrar líkamsímyndar

Nanna Árnadóttir skrifar
Vísir/Getty
Það er óhætt að segja að heilsuræktaræði hafi gripið þjóðina. Líkamsræktarstöðvarnar yfirfyllast þegar þær eru opnaðar klukkan 6 á morgnana og oftar en ekki er röð til þess að komast inn. Stanslaus umferð er inn og út úr stöðvunum allan daginn og hvert sem maður lítur er fólk í göngutúrum eða úti að hlaupa eða hjóla. Fólk er orðið meðvitaðra um mikilvægi þess að hreyfa sig og borða hollt. Þetta gleður hjarta lítils íþróttafræðings sem elskar að sjá að fólki líði betur bæði andlega og líkamlega þegar líkamsástandið fer að batna.

Þrátt fyrir þetta berast síendurteknar fréttir af rannsóknum sem leiða það í ljós að enn fleiri, bæði strákar og stelpur, eru óánægð með líkama sinn. Að enn fleiri óski sér þess að vera öðruvísi en þau eru, léttari, með grennri læri, stærri brjóst, stærri handleggi og brjóstkassa eða kúlulagaðri rass. Þetta getur leitt til veikari sjálfsmyndar og niðurbrots á sjálfstrausti og getur þróast út sjúkdóma eins og t.d. vöðvafíkn eða átröskun.

En af hverju er þetta svona? Hver eða hvað er það sem segir okkur að við séum ekki fullkomin nema við séum mótuð nákvæmlega eftir einhverju ákveðnu formi? Af hverju getum við ekki bara verið sátt við okkur eins og við erum, vitandi það að það eru engir tveir eins? Af hverju leyfum við einhverri tölu á rafmagnsvigt, sem getur rokkað upp og niður eftir því hvort við erum búin að fara á klósettið, að veita okkur hamingju eða óánægju?

Vísir/Getty
Fjölmiðlar og samfélagið eiga stóran þátt í því. Hvert sem við lítum eru einmitt allir að hreyfa sig, að hlaupa, að borða kál og rífa upp lóðin, eftir á er síðan að sjálfsögðu sett inn ein fáklædd mynd á Instagram til að sýna árangurinn.

Í öllum fjölmiðlum eru auglýsingar meðal annars frá fæðubótarfyrirtækjum sem lofa meiri brennslugetu ef þú tekur inn einhverjar ákveðnar töfratöflur, sem geta þó meðal annars leitt til hjartsláttartruflana og fleiri kvilla, en það stendur nú bara í smáa letrinu. Í öllum tímaritum eru dúndurflottar fyrirsætur sem eru þó eiginlega ekki mennskar lengur því það er búið að breyta þeim svo svakalega í tölvuforriti til þess að þær líti út eins og fyrirsætur EIGA að líta út. Alls staðar eru auglýsingar frá fyrirtækjum sem eru að auglýsa nýja kúrinn sem á eftir að breyta lífi þínu, safann sem lætur þig fá flatan kvið á 3 dögum og duftið sem hreinsar þig alla(n) að innan.

Mér finnst ótrúlegt að við leyfum þessu að viðgangast og þetta sé búið að þróast í þessa átt í öll þessi ár. Þó svo að einhver manneskja sé vel í holdum þarf það ekkert endilega að þýða að hún sé í lélegu formi. Góð vísa er aldrei of oft kveðin. Verum ánægð með okkur sjálf. Elskum líkama okkar því við eigum bara einn. Hættum að upphefja einhverja eina ákveðna líkamsgerð og lifum í sátt við okkur sjálf. Tökum fjölbreytileikanum fagnandi. Hreyfum okkur og borðum hollan mat til þess að okkur líði VEL bæði andlega og líkamlega, ekki til þess að rífa okkur sjálf niður eða aðra í kringum okkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×