Innlent

Glíma við bilaðan bor og mikinn hita

Haraldur Guðmundsson skrifar
Vaðlaheiðargöng eru nú 2.950 metra löng.
Vaðlaheiðargöng eru nú 2.950 metra löng. Vísir/Auðunn
Verktakar í Vaðlaheiðargöngum glíma nú við vélarbilanir, mikið vatn í berginu og hitann frá sprungunni sem opnaðist í febrúar síðastliðnum. Göngin lengdust um 21 metra í síðustu viku en um 55 metra að meðaltali áður en sprungan opnaðist.

„Verktakarnir vinna nú tvær átta klukkustunda vaktir vegna hitans en áður var unnið allan sólarhringinn. En nú er kominn kælibúnaður sem á að lækka hitann innst í göngunum,“ segir Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf.

Hann segir könnunarholur, sem verktakinn borar 30 til 40 metrum á undan, sýna að um 59 gráðu heitt vatn er í berginu. Heitavatnssprungan sem opnaðist í vetur dælir um 200 lítrum af 46 gráðu heitu vatni á sekúndu og gerir vinnuaðstæður í göngunum erfiðar.

„Það hefur því farið mikill tími í bergþéttingar en það hefur verið ákveðið að fresta því að loka stóru sprungunni þangað til byrjað verður að bora í Fnjóskadal. Síðan virka einungis tveir af þremur örmum borsins og það hægir einnig á vinnunni,“ segir Valgeir og bætir við að aðrar vélar verktakanna í Fnjóskadal hafi einnig bilað. Hann segist vonast til þess að gangagerð geti hafist í dalnum áður en veturinn skellur á.

„Samkvæmt samningi átti verktakinn að vera byrjaður í Fnjóskadal í lok maí og þá með öðru borgengi. Þeir hafa ekki keypt þann bor og því erum við að leggja áherslu á að þeir byrji þá þar með borgengið sem er í Eyjafirði. Þá verður hægt að nota tímann til að loka sprungunni og jafnvel bæta loftræstinguna og vinnuaðstæður þeim megin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×