Erlent

Mikill eldur í olíubirgðastöð í Trípólí

Randver Kári Randversson skrifar
Svartan reyk leggur frá olíubirgðastöðinni.
Svartan reyk leggur frá olíubirgðastöðinni. Vísir/AP
Eldur sem kom upp í olíubirgðastöð í Trípólí, höfuborg Líbýu, í kjölfar átaka í borginni, hefur breiðst út til annars tanks. Ríkisolíufélag Líbýu segir eldinn vera stjórnlausan.

Líbýsk yfirvöld segja stríðandi fylkingar uppreisnarmanna hafa komið eldinum af stað. Á vef BBC segir að slökkviðliðsmenn hafi verið við það að ná tökum á eldinum en þeir hafi þurft að hætta slökkvistörfum þegar átök brutust út að nýju við olíubirgðastöðina. Eldurinn hafi breiðst enn frekar út þegar sprengjubrot lenti á öðrum olíutanki. Öllum íbúum innan 3-5 km fjarlægðar frá olíutönkunum hefur verið fyrirskipað að yfirgefa svæðið.

Líbýsk yfirvöld óskuðu fyrr í dag eftir alþjóðlegri aðstoð við að ná tökum á eldinum.

Í það minnsta 97 létust í átökum um stærsta flugvöll Trípólí í síðustu viku. Átökin í Líbýu nú eru þau mestu frá því Muammar Gaddafi var steypt af stóli árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×