Innlent

Mikil mildi að ekki hafi farið verr

Mildi þykir að ekki hafi orðið stórbruni þegar eldur kom upp í verslunarhúsnæði að Smiðjuvegi í Kópavogi í nótt. Þrátt fyrir að húsnæðið sé skráð iðnaðarhúsnæði hafa þó nokkrir einstaklingar búsetu í húsnæðinu en þegar eldurinn kom upp voru um tólf til fimmtán einstaklingar í íbúðunum sem allir þurftu að flýja út vegna brunans.

Allt tiltækt lið Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins auk slökkviliðsmanna á frívakt var kallað út á öðrum tímanum í nótt vegna elds í verslunarhúsnæði við Smiðjuveg 2 í Kópavogi. Eldurinn uppgötvaðist er öryggisvörður átti leið um svæðið og varð eldsins var. Fjölbreytt starfsemi er í húsnæðinu meðal annars húsgagnaverslun og veitingastaðir, apótek og matvöruverslun en auk þess eru íbúðir sem tólf til fimmtán einstaklingar dvöldu í og þurftu þeir að flýja út vegna eldsins.

Óttar Karlsson var vettvangsstjóri Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins á vettvangi í nótt. Hann segir að það hafi tekið slökkviliðsmenn nokkurn tíma að átta sig á hvað væri í gangi.

„Við teljum að eldurinn hafi verið á millilofti sem að liggur hérna á milli eða hafi byrjað á Bingó og Rúmgott.

Slökkviliðsmenn þurftu að brjóta sér leið inn í húsnæði en viðbúnaður vegna brunans var mikill. Ótta segir að eldur hafi verið í húsinu þegar slökkvilið kom á vettvang og mikill reykur sem hafði borist á milli verslunarrýma.

„Aðallega reykur, en jú það var eldur líka.“

Óttar sagði slökkviliði ekki hafa haft upplýsingar um að búið væri í húsinu.

„Hverju á maður ekki von á í dag? Nei við áttum það svo sem ekki.“

Rauði krossinn kom íbúunum fyrir í bráðabirgðahúsnæði.

Eldurinn reyndist að mestu bundinn við milliloft og þak yfir þremur verslunarrýmum og þurfti slökkviliðið að rjúfa þakið til þess að komast að eldinum. Um þrjár klukkustundir tók að ráða niðurlögum eldsins og eru töluverðar skemmdir á húsnæðinu og á innan stokksmunum í verslunum bæði vegna elds og reyks.

Slökkviliðið var á vettvangi til klukkan sex í morgun. Eldsupptök eru ókunn og rannsakar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tildrög brunans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×