Innlent

Mikil fjölgun vændismála

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn, segir lögregluna hafa fengið fjölda upplýsinga og ábendinga um vændi á síðasta ári.
Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn, segir lögregluna hafa fengið fjölda upplýsinga og ábendinga um vændi á síðasta ári. Vísir/Valli
Ársskýrsla lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2013 kom út í síðastu viku. Í henni kemur fram að vændismálum fjölgaði mikið á milli ára; árið 2012 voru þau 22 talsins en í fyrra 98. Um er ræða mál sem lögreglan tók til rannsóknar og beindust þau að kaupendum vændis. Ekki liggur fyrir í hversu mörgum málum var ákært.

Í skýrslu lögreglunnar um fjölda vændismála segir orðrétt:

„Miklar sveiflur hafa verið í fjölda tilvika undanfarin ár einkum vegna þess að þessi brot eru að mestu tilkomin vegna frumkvæðisvinnu lögreglu og sveiflast

fjöldinn því nokkuð eftir áherslum í löggæslu á hverjum tíma.“

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn, segir frumkvæðisvinnu lögreglu tilkomna vegna upplýsinga og ábendinga sem lögreglunni hafi borist um vændi. Það hafi því verið farið í sérstakt átak þar sem sjónum var sérstaklega beint að vændismálum.

Stígamót segja aðgerðaráætlun stjórnvalda gegn mansali og vændi ágæta en áætluninni þarf að fylgja fjárveiting.
Fjöldi vændismála kemur Stígamótum ekki á óvart

Þórunn Þórarinsdóttir hjá Stígamótum fagnar átaki lögreglunnar en segir að því miður komi fjöldi vændismála samtökunum ekki á óvart.

„Við höfum bent á þetta í mörg ár og þessar tölur lögreglunnar þýða ekkert endilega að það sé meira um vændi. Þetta sýnir bara að um leið og farið er í átak á borð við það sem lögreglan réðst í þá skilar það árangri,“ segir Þórunn.

Þórunn segir að hjá stjórnvöldum sé til fín aðgerðaráætlun varðandi það hvernig taka eigi á mansali og vændi en þrátt fyrir það hafi lítið gerst í málaflokknum.

„Við hjá Stígamótum rákum Kristínarhús sem tilraunaverkefni í tvö og hálft ár og var það sérstaklega hugsað fyrir konur sem voru á leið úr vændi og/eða mansali. Húsinu var svo lokað þar sem ekki voru til nægir fjármunir fyrir starfseminni en fjárveitingin sem við fengum dugði einungis fyrir leigunni,“ segir Þórunn.

Hún segir mikla þörf á úrræði fyrir konur sem eru á leið út úr vændi og/eða mansali. Kristínarhús hafi sýnt það og þó að það sé ekkert endilega rétta formið fyrir slíkt úrræði þá þurfi nauðsynlega eitthvað að gerast í þeim málum.

„Aðgerðaáætlun stjórnvalda er fínn pappír en svona áætlunum þarf að fylgja fjárveiting. Við hnipptum í stjórnvöld í haust og bentum þeim á ýmislegt sem þarf að gera,“ bætir Þórunn við að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×