Innlent

Mikil fjölgun smábáta á makrílveiðum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
„Það stefnir í metár,“ segir skipstjóri sem hefur verið á makrílveiðum skammt frá Grindavík síðustu daga. Talsvert fleiri smábátar stunda nú makrílveiðar en á sama tíma á síðasta ári.

Sigurbjörn Berg skipstjóri á Andey GK og Þorleifur Guðjónsson háseti hafa síðustu vikur verið á makrílveiðum og gert út frá Grindavíkurhöfn. Fréttamaður og myndatökumaður Stöðvar 2 fengu að slást í för með þeim félögum í morgun en mikið hefur veiðst af makríl við innsiglingunni, skammt frá höfninni.

„Ætlum við séum ekki komnir með 50-60 tonn síðastliðin mánuð. Það er mjög gott og sumir hafa náð enn meiru,“ segir Sigurbjörn Berg.

Andey GK, sem eitt sinn var norskur rannsóknarbátur, hefur verið sérútbúinn af íslenskri hönnun fyrir makrílveiðar líkt og fjöldi annarra smábáta. Það kostar þó skildinginn.

„Það kostar svona 10 milljónir að útbúa svona dæmi,“ segir Sigurbjörn og margir hafa farið þá leið. „Það er enginn árangur af þessu öðruvísi. Hitt er bara vitleysa.“

Þrátt fyrir mokveiði hjá skipverjum Andey á síðustu vikum þá gengu veiðar nokkuð erfiðlega í morgun. Skipstjóri taldi nærveru fréttamanns líklegstu ástæðuna fyrir aflabresti dagsins.

Um 110 smábátar hafa verið á makrílveiðum í ár og hefur þeim fjölgað um helming ef miðað er við síðustu vertíð. Nú þegar eru 4.000 tonn komin að landi en smábátar mega veiða 6.800 tonn í ár. Smábátasjómenn vonast til að kvótinn verði aukinn svo hægt verði að veiða fram í nóvember.

Nánar í myndbandinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×