Innlent

Mikil aukning í fyrirspurnum til ráðherra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Á síðasta kjörtímabili voru lagðar fram 513 fyrirspurnir til skriflegs svars.
Á síðasta kjörtímabili voru lagðar fram 513 fyrirspurnir til skriflegs svars. Vísir/GVA
Þegar Alþingi var frestað í gær og þingmenn fóru í jólafrí gerði Einar K. Guðfinnsson, forseti þingsins, fjölgun fyrirspurna þar sem óskað er eftir skriflegum svörum ráðherra að sérstöku umtalsefni.

Í máli Einars kom fram að 215 fyrirspurnir voru lagðar fram á haustþingi og sagði hann að ef svipaður fjöldi yrði lagður fram á þeim tveimur önnum sem eftir eru af yfirstandandi þingi, yrðu þær fleiri en fjöldi fyrirspurna til skriflegs svars á öllu seinasta kjörtímabili. Einar sagði að þá hefðu verið lagðar fram alls 513 fyrirspurnir en kjörtímabilið 2003-2007 voru þær 403.

Að sama skapi hefur fyrirspurnum til munnlegs svars fækkað en Einar sagði að það mætti að einhverju leyti rekja til breytingar á þingsköpum sem gerð voru í árslok 2007. Þá var óundirbúnum fyrirspurnatíma til ráðherra fjölgað og eru þeir nú tvisvar í viku.

Einar sagði erfitt að skýra með fullnægjandi hætti þessa miklu fjölgun í fyrirspurnum til skriflegs svars sem varð á haustþinginu. Í máli hans kom fram að hann teldi það þó ekki æskilega þróun „ef hefðbundnar fyrirspurnir eiga eftir að þróast í þá átt að verða fyrst og fremst í því formi að ráðherrar leggi fram skrifleg svör.“

Að mati þingforseta felst gildi fyrirspurna ekki síst í því að þær geta boðið upp á snörp og markviss skoðanaskipti á milli ráðherra og þingmanna og benti hann á eftirfarandi í því samhengi:

„Til þess að slík skoðanaskipti um málefni líðandi stundar geti átt sér stað er líka nauðsynlegt að fyrirspurn til munnlegs svars taki mið af ákvæðum þingskapa, en þar segir að fyrirspurn eigi að vera skýr, um afmörkuð atriði og við það miðað að hægt sé að svara henni í stuttu máli.“

Að lokum sagði að Einar að þrátt fyrir þessa miklu fjölgun fyrirspurna þá hefði svarhlutfall ekki minnkað heldur hefði það þver á móti batnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×