Innlent

Mikið vatnsveður kemur niður á flugvellinum

Samúel Karl Ólason skrifar
Flugvöllurinn í Norðfirði er við botn fjarðarins.
Flugvöllurinn í Norðfirði er við botn fjarðarins. Vísir/Pjetur
Vegna mikils vatnaveðurs á Austfjörðum að undanförnu hafa vaknað spurningar um flugvöllinn í Norðfirði og hvort hann geti mögulega farið á kaf.

„Það hafa verið óvenjulegar aðstæður hérna á Austfjörðum í haust,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar. „Hérna hefur rignt gríðarlega mikið og á tímabili hafði snjóað líka. Þannig að það komu leysingar líka þegar rigndi.“

Í rigningunni í haust hækkaði yfirborð sem liggur norðan við flugvöllinn mjög og er völlurinn nú blautur. Um er að ræða malarflugbraut. Þá voru gerðar breytingar á frárennsli frá höfninni og hefur það áhrif einnig.

„Við erum núna að fara ofan í það hvað hægt sé að gera til að létta á leirunni komi svona vatnavextir aftur. Við erum byrjaðir í þeirri vinnu.“

Að langmestu leyti er flugvöllurinn nýttur fyrir sjúkraflug þar sem fjórðungssjúkrahús Austfjarða er í Norðfirði. Því er mikilvægt að halda vellinum í notkun.

„Við munum gera allt sem við getum til þess að það flæði ekki á völlinn. Það rétt slapp núna, en að vísu er hann blautur. Það er búið að vera svo mikið vatnsveður,“ segir Páll.

Páll bendir á það að á sama tíma í fyrra var búið að opna skíðasvæði Fjarðabyggðar en nú sé enginn snjór í fjöllunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×