Innlent

Mikið vatnsveður á Austurlandi: Flæðir inn í hús á Seyðisfirði

Atli Ísleifsson skrifar
Flætt hefur inn í hús sem standa við Dagmálalæk á Seyðisfirði.
Flætt hefur inn í hús sem standa við Dagmálalæk á Seyðisfirði. Hulda Ragnheiður Árnadóttir
Flætt hefur inn í hús á Seyðisfirði og skemmdir hafa orðið á ársgamalli brú á Eskifirði í miklu vatnsveðri sem hefur verið á Austurlandi í dag.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands, var stödd á Eskifirði þegar Vísir náði tali af henni skömmu fyrir klukkan 23. „Hér á Eskifirði er gríðarleg aurskriða niður úr farvegi Hlíðarendaár sem liggur í gegnum bæinn. Þar er verið að moka einhverjum þúsundum rúmmetra af grjóti. Það er í raun tjón sem er ekki á vátryggðum eignum hjá okkur, nema að mjög takmörkuðu leyti þar sem búið er að flæða inn í einhverjar tvær skemmur fyrir neðan veginn.“

Hulda Ragnheiður segir að á Eskifirði sé ekki um stórkostleg tjón á eignum sem eru tryggðar séu Viðlagatryggingum að ræða. Hins vegar sé þetta gríðarlegt tjón fyrir sveitarfélagið, Fjarðabyggð. „Þetta er ný brú, ársgömul, sem liggur út í ytri hluta bæjarins, og það er allt stíflað. Það er ófært yfir þann hluta bæjarins á meðan er að hreinsa þetta. Það er stíflað undir brúna þannig að vatnið flæðir bara yfir hana.“

Garðarvegur var rofinn í kvöld.Hulda Ragnheiður Árnadóttir
Ástæðan fyrir því hve vatnsmikil Hlíðardalsá í Eskifirði er um þessar mundir er að unnið er að því að hreinsa árfarveg ár í nágrenninu. Meðan sú vinna stendur yfir er vatni úr þeirri á veitt í Hlíðarendaá sem er afar vatnsmikil af þeim sökum.

Hulda Ragnheiður segir að á Seyðisfirði sé mun meira tjón á vátryggðum eignum en á Eskifirði. „Þar hefur verið að flæða inn í hús, bæði í kjallara og íbúðarhús sem stendur við Dagmálalæk, við Garðarsveg. Það er búið að rjúfa veginn, Garðarsvegur, þar til að hleypa vatninu fram,“ segir Hulda Ragnheiður.

Fjarðará.Hulda Ragnheiður Árnadóttir

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×