Innlent

Mikið tjón í bruna á Akureyri

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá brunanum norðan heiða í nótt.
Frá brunanum norðan heiða í nótt. Vísir
Mikið tjón varð í bruna á Akureyri í nótt þegar eldur kom upp á bílaverkstæði í bænum. Slökkviliðið var kallað út að Fjölnisgötu sex um klukkan hálfeitt þar sem tilkynnt hafði verið um mikinn eld. Einn var við vinnu á verkstæðinu og náði hann að forða sér út og kalla á slökkvilið en hann hafði verið við suðuvinnu.

Vísir
Maðurinn var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar en sakaði ekki. Nokkur iðnaðarbil eru í húsinu og var reykur tekinn að berast í næstu bil við verkstæðið þegar slökkvilið bar að garði. Unnið var að því að koma í veg fyrir að eldurinn næði að læsa sig í næstu bil og gekk það þokkalega að sögn vaktstjóra hjá slökkviliðinu.

Það tókst þó ekki alveg auk þess sem nokkrar vatnsskemmdir eru á nærliggjandi bilum. Að auki þurfti að rjúfa þak byggingarinnar og í heildina eru fimm bil skemmd eftir eldsvoðann þótt mestar séu skemmdirnar þar sem eldurinn kom upp. Slökkvistarfi lauk um klukkan hálf fimm í morgun og voru fimmtán manns við slökkvistarfið auk þess sem slökkvilið Isavia á Akureyrarflugvelli kom einnig til aðstoðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×