Innlent

Mikið jökulvatn í Bláfjallakvísl: Göngufólk á Laugaveginum hvatt til að gæta varúðar

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Laugavegurinn er gönguleið milli Landmannalaugar og Þórsmerkur.
Laugavegurinn er gönguleið milli Landmannalaugar og Þórsmerkur. Vísir/Vilhelm
Ferðafólk á göngu um Laugaveginn, milli Landmannalaugar og Þórsmerkur, er hvatt til að gæta fyllstu varúðar á ferðum sínum en mikið jökulvatn er nú í Bláfjallakvísl sem rennur frá norðurhluta Mýrdalsjökuls. Tilkynningar hafa borist um brennisteinslykt á svæðinu vegna lekans.

Vaða þarf Bláfjallakvísl á hinni vinsælu gönguleið en vöðin eru sérstaklega varhugaverð nú. Vatnshæð og rafleiðnimælingar við brú Múlakvíslar sýni aukinn leka jarðhitavatns undan Mýrdalsjökli. Jarðhitavatn hefur hins vegar lítil áhrif á vatnshæð í Bláfjallakvísl heldur er þar um að ræða aukinn vatnsstraum vegna mikilla hlýinda að undanförnu.

Tiltölulega rólegt eins og er

Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir ástæðu til að fylgjast vel með stöðunni. „Staðan er sú að það er tiltölulega rólegt eins og er. Virknin hefur aðeins færst sunnar í öskjunni og komin lengra inn á vatnasvið Múlakvíslar. Það er samt mjög rólegt núna, en enn er há rafleiðni í Múlakvísl og tiltölulega mikið vatn í ánni. En ekki eins og í stóru jökulhlaupi.“

Sigurdís segir ekki vera um bráða hættu að ræða. „Við erum þó alltaf á tánum ef kæmi jökulhlaup. Það eru alltaf að koma tilkynningar um jarðhitalykt sem finnst á svæðinu, brennisteinslykt, en við erum að gefa út svona yfirlýsingu vegna viðbúnaðar út af auknum ferðamannastraumi á þessu svæði.“

Veðurstofan gaf í gær út viðvörun þar sem ferðafólk á göngu um Laugaveginn er hvatt til að gæta varúðar við Bláfjallakvísl vegna mikils rennslis.

Aldrei fleiri gengið Laugaveginn

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir aldrei fleira göngufólk hafa verið á svæðinu en í sumar. „Við erum með einn hóp á ferðinni. Það er Ferðafélag barnanna. Það eru milli 200 og 250 manns að ganga núna milli hvers skálasvæðis yfir helgina. Skálaverðir hafa tekið stöðuna og skoðað aðstæður og við höfum verið í sambandi við Veðurstofuna.“

Hann segir göngufólk á svæðinu vera meðvitað um hættuna og vera duglegt að leita ráða og upplýsinga og fara eftir þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×