Innlent

Mikið hvassviðri gengur yfir vestanvert landið

Atli Ísleifsson skrifar
Mjög hvasst hefur verið á suðvestanverðu og vestanverðu landinu í dag.
Mjög hvasst hefur verið á suðvestanverðu og vestanverðu landinu í dag. Vísir/Anton
„Vindurinn hefur verið hressilegur uppi í Skálafelli. Meðalvindurinn hefur farið í 30 metra á sekúndu þar og hviðurnar í 35,“ segir Árni Sigurðsson, veðurfræðingur á Veðurstofunni, í samtali við Vísi, en mjög hvasst hefur verið á suðvestanverðu og vestanverðu landinu í dag.

Árni segir veðrið á landinu vera mjög líkt því og spáð var. „Mér sýnist stefna í að það verði víða 15 til 20 metra vindur suðvestan og vestanlands. Það getur sums staðar farið í storm, farið í 23 metra vind. Það er ennþá að bæta í vindinn.“

Árni segir að það muni einnig bæta svolítið í úrkomuna með kvöldinu. „Svo breytist yfir í suðvestanátt sem er mun hægari, svona 8 til 13 metrar á sekúndu. Það er aðallega hvasst á suðvestan og vestanverðu landinu en mun hægara austantil. Svo á eitthvað eftir að hvessa þar, en það verður ekki eins hvasst eins og er á þessu svæði,“ og vísar þar til suðvesturhorns landsins.

Að sögn Árna hefur einnig hvesst mikið við veginn undir Hafnarfjalli nú síðdegis. „Hviðurnar hafa farið upp í 37 metra á sekúndu en meðalvindhraðinn hefur þó ekki verið nema um 12 metrar á sekúndu. Það er voðalega hviðótt þarna eins og er oft undir fjöllum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×