Erlent

Mike Pence notaði einkavefþjón fyrir tölvupósta sína sem ríkisstjóri

Samúel Karl Ólason skrifar
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, notaðist við einkavefþjón fyrir tölvupósta sína þegar hann var ríkisstjóri Indiana. Á tímum ræddi hann viðkvæm mál og jafnvel öryggismál, sem flokkuð eru sem viðkvæm, í tölvupóstum.

Dagblaðið Indianapolis Star hefur farið yfir fjölda tölvupósta úr AOL pósthólfi Pence og fundið þar, meðal annars, samskipti ríkisstjórans fyrrverandi og Alríkislögreglunnar um handtökur á grunuðum hryðjuverkamönnum.

Sérfræðingar segja fyrirkomulag Pence vekja upp spurningar um hvort að viðkvæm gögn hafi varin nægjanlega gegn tölvuþrjótum. Ljóst er að pósthólf Pence varð fyrir tölvuárás síðasta sumar.

Allir á tenglaskrá Pence fengu tölvupóst frá honum, en í honum stóð að ríkisstjórinn og eiginkona hans væru föst í Filippseyjum og þyrftu nauðsynlega á peningum að halda til að komast heim.

Talsmaður PenceMarc Lotter, segir að hann hafi ekki notast við pósthólfið frá því að hann varð varaforseti Bandaríkjanna. Enn fremur hafi hann fengið utanaðkomandi aðila til að fara yfir tölvupósta í AOL pósthólfinu þegar hann hætti sem ríkisstjóri. Sá aðili hafi séð til þess að allir tölvupóstar sem tengdust opinberum málum yrðu sendir til ríkisins og skráðir sem opinber gögn.

Pence og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, gagnrýndu Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump, harðlega vegna einkavefþjóns hennar þegar hún var utanríkisráðherra.

Lotter segir fyrirkomulag Pence og Clinton ekki sambærilegt, meðal annars þar sem Pence hafi ekki meðhöndlað leyndarmál ríkisins eins og hún.

Indianapolis Star fékk um 30 blaðsíður af tölvupóstum Pence frá núverandi ríkisstjóra Indiana, sem neitaði þó að afhenda ótilgreindan fjölda pósta þar sem þeir væru trúnaðarmál, eða of viðkvæmir til að verða opinberir.

Sérfræðingar sem miðillinn ræddi við segja líklegt að pósthólf Pence hafi verið alveg jafn óöruggt og pósthólf Clinton. Ekki er vitað til þess að pósthólf Clinton hafi orðið fyrir tölvuárás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×