Innlent

Mikael Torfason verður ritstjóri við hlið Ólafs

Ritstjórar Fréttablaðsins, Mikael Torfason og Ólafur Stephensen. Mynd/Valli
Ritstjórar Fréttablaðsins, Mikael Torfason og Ólafur Stephensen. Mynd/Valli
Mikael Torfason mun taka við starfi ritstjóra á Fréttablaðinu við hlið Ólafs Stephensen núverandi ritstjóra Fréttablaðsins. Starfsfólki var tilkynnt þetta nú rétt eftir klukkan þrjú.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir blaðamaður hefur verið ráðin ritstjóri Fréttatímans í stað Mikaels við hlið Jónasar Haraldssonar. Í tilkynningu frá Fréttatímanum segir að Sigríður Dögg hafi tekið virkan þátt í þróun og eflingu Fréttatímans undanfarið ár sem hafi skilað auknum lestri og ánægju með blaðið en lestur Fréttatímans hafi aukist, samkvæmt lestrarkönnunum Gallup.

"Það er ánægjulegt að vera kominn aftur á Fréttablaðið, minn gamla og góða vinnustað og ég hlakka til að takast á við að ritstýra stærsta dagblaði landsins ásamt Ólafi og öllu því góða fólki sem starfar við útgáfuna," segir Mikael í tilkynningu vegna ráðningarinnar. "Ég býð Mikael Torfason velkominn til starfa. Ég tel að blaðinu sé mikill styrkur að ráðningu hans," segir Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins. "Ég hlakka til að eiga við hann gott samstarf um að efla Fréttablaðið enn frekar og standa vörð um sjálfstæði ritstjórnarinnar."

"Ráðning Mikaels er liður í áframhaldandi sókn Fréttablaðsins, sem er langmest lesna dagblað landsins," segir Ari Edwald, forstjóri 365. "Eftir umbrotatíma síðustu ára er rekstur Fréttablaðsins góður og við gerum okkur vonir um að geta eflt útgáfuna enn frekar á næstu árum," segir hann jafnframt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×