Fótbolti

Mihajlovic rekinn frá AC Milan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Sinisa Mihajlovic hefur verið rekinn úr starfi knattspyrnustjóra AC Milan á Ítalíu en liðið hefur gefið verulega eftir í baráttunni um Meistaradeildarsæti síðustu vikurnar.

Cristian Brocchi, fyrrum leikmaður AC Milan, mun stýra liðinu út tímabilið en hann hefur að undanförnu starfað sem þjálfari unglingaliðs AC Milan.

Brocchi snæddi kvöldverð með Berlusconi í gær en eftir fundinn ákvað eigandinn að hann skyldi verða nýr stjóri liðsins - sá fimmti á aðeins þremur árum.

Mihajlovic tók við AC Milan síðastliðið sumar og náði ekki að snúa við slæmu gengi liðsins síðustu árin þar á undan. Liðinu hefur ekki tekist að komast í Evrópukeppni síðustu tvö tímabil og útlitið er dökkt núna en AC Milan hefur spilað fimm leiki í röð án sigurs.

AC Milan er í sjötta sæti deildarinnar með 49 stig og er sjö stigum á eftir Fiorentina sem er í fimmta sætinu. Sjötta sætið gæti þó dugað til að komast í Evrópudeild UEFA en Milan er einnig komið í úrslitaleik bikarsins sem veitir einnig þátttökurétt í keppninni.

Brocchi er fertugur og er uppalinn hjá Milan. Hann spilaði einnig með Hellas Verona, Inter, Fiorentina og Lazio á ferlinum en lengst af hjá Milan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×