Enski boltinn

Mignolet: Ég lærði heilmikið af bekkjarsetunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Simon Mignolet, markvörður Liverpool, segir að ákvörðun Brendan Rodgers, stjóra liðsins, að setja hann á bekkinn muni mögulega hafa jákvæð áhrif á feril hans.

Rodgers tók Mignolet út úr liðinu fyrir leik þess gegn Manchester United fyrr í mánuðinum og tilkynnti að Brad Jones myndi verja mark Liverpool í næstu leikjum.

Jones meiddist hins vegar í leik Liverpool gegn Burnley á öðrum degi jóla. Mignolet kom inn á og hélt hreinu. Líklegt er að hann verði í byrjunarliðinu í kvöld er Liverpool mætir Swansea á Anfield.

„Við ræddum saman og fengum nokkra hluti á hreint. Ég held að það hafi verið jákvætt samtal,“ sagði Mignolet við fjölmiðla í Englandi. „Ég ætla ekki að gefa upp um hvað við ræddum en þetta var gott og heiðarlegt samtal.“

„Stundum verður maður að gera eitthvað gott úr neikvæðum aðstæðum og það hef ég reynt að gera. Það er erfitt í fyrstu en ég er 26 ára gamall og veit í hverju ég þarf að vinna. Ég hef getað nýtt tímann til þess.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×