Enski boltinn

Miðvarðahallæri hjá Arsenal fyrir bikarúrslitaleikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gabriel og Laurent Koscielny verða fjarri góðu gamni í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn.
Gabriel og Laurent Koscielny verða fjarri góðu gamni í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn. vísir/getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal, er vandi á höndum fyrir bikarúrslitaleikinn gegn Chelsea á laugardaginn en það er miðvarðahallæri hjá liðinu.

Laurent Koscielny verður í leikbanni vegna rauða spjaldsins sem hann fékk í 3-1 sigrinum á Everton í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn. Arsenal áfrýjaði rauða spjaldinu en það stendur.

Brasilíumaðurinn Gabriel meiddist á hné í leiknum gegn Everton og var borinn af velli. Nú er ljóst að hann verður frá í allt að því átta vikur vegna meiðslanna. Það er því útséð með þátttöku hans í bikarúrslitaleiknum.

Þá glímir Shkodran Mustafi við afleiðingar höfuðhöggs sem hann fékk í leik gegn Sunderland í síðustu viku. Óvíst er hvort hann verði klár fyrir laugardaginn.

Wenger hefur spilað leikkerfið 3-4-3 að undanförnu en á varla miðverði í það eins og staðan er núna.

Rob Holding hefur spilað vel að undanförnu og verður væntanlega í liðinu á laugardaginn. Per Mertesacker spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu gegn Everton og þá hefur Nacho Monrel af og til leyst stöðu miðvarðar.

Bikarúrslitaleikurinn á laugardaginn er sá áttundi hjá Arsenal undir stjórn Wengers. Hann hefur unnið sex bikarmeistaratitla sem stjóri Arsenal.


Tengdar fréttir

Breytingin sem kom of seint

Þrátt fyrir frábæran endasprett tókst Arsenal ekki að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu. Breytingar ­Arsene Wenger komu of seint. Mikil óvissa ríkir hjá Arsenal, þá sérstaklega varðandi framtíð Wengers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×