Lífið

Miðum fjölgað í The Color Run

Stefán Árni Pálsson skrifar
Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri The Color Run á Íslandi.
Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri The Color Run á Íslandi.
Miðum í The Color Run by Alvogen litahlaupið í næstu viku hefur verið fjölgað en að óbreyttu hefðu upphaflegir miðar klárast í dag. 

„Miðasalan í hlaupið í fyrra gekk framar vonum og okkar upphaflegu áætlanir og pantanir á púðri og öðrum aðföngum miðuðu við sama fjölda og hljóp þá,” segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri The Color Run á Íslandi. 

„Þegar við sáum í hvað stefndi í sölunni fyrir um tveimur vikum hófumst við þegar handa við að tryggja okkur næg aðföng til að geta bætt miðum í hlaupið.  Það er nú klárt og okkur því ekkert að vanbúnaði að bæta þúsund miðum í sölu,” segir Davíð og bætir við að aukabirgðirnar komi frá litahlaupum sem verði í Danmörku í lok sumars og gátu aðstandendur þeirra hlaupa hlaupið undir bagga því þar en enn nægur tími til stefnu.

Útlit er fyrir að þeir miðar sem bætt hefur verið í sölu muni seljast upp miðað við söluna síðustu dagana í fyrra. 

„Þegar þessir miðar seljast upp þá getum við því miður ekki gert meira. Miðum verður ekki fjölgað umfram þetta þar sem við viljum tryggja sem besta og jákvæðasta upplifun allra sem hlaupa,” segir Davíð að lokum. 

Hlaupið fer fram í miðbæ Reykjavíkur þann 11. júní og er hlaupið nú haldið í annað sinn á Íslandi. Hér að neðan má sjá samantekt frá þessum skemmtilega degi í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×