Innlent

Miðlun búsáhaldaskýrslunnar braut í bága við lög

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá mótmælum á Austurvelli árið 2009.
Frá mótmælum á Austurvelli árið 2009. Vísir/Stefán
Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að öryggi hafi ekki verið nægilega tryggt við vinnslu persónuupplýsinga í samantekt lögreglu á skipulagi við mótmælin 2008-2011.

Þá var miðlun lögregluskýrslunnar brot á lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í skýrslunni var hægt að sjá nöfn þeirra sem fjallað var um en þau átti að afmá samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Persónuvernd komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að skráning persónuupplýsinga um mótmælendur í upplýsingakerfi lögreglunnar, LÖKE, hafi verið heimil.

„Þá er skráning persónuupplýsinga í þágu samantektarinnar talin heimil hvað varðar þá kvartendur sem störfuðu sem lögreglumenn fyrir lögregluna en óheimil hvað varðar þá kvartendur sem voru viðstaddir mótmælin,“ að því er segir á vef Persónuverndar.

Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, tók umrædda skýrslu saman um mótmælin á árunum 2008-2011.

Lögreglunni var gert að afhenda eintök af skýrslunni í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál og voru nokkur eintök send á fjölmiðla. Þá kom í ljós að nöfn þeirra sem um var fjallað í skýrslunni voru enn greinileg.


Tengdar fréttir

"Mikið má skýrsluhöfundurinn skammast sín“

"Ranghugmyndirnar eru svo svakalegar að ég held að það muni líða langur tími þangað til að ég geti borið eitthvað traust til þeirra sem tjá sig um mig og vini og bandamenn í þessu plaggi,“ segir Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata.

Yfirmenn lögreglu á fundi í Hvalfirði þegar upp úr sauð

Nokkrir yfirmenn lögreglu sátu fund í Hvalfirði þegar upp úr sauð í Búsáhaldabyltingunni fyrir setningu Alþingis í janúar 2009. Lögreglustjóra hafði þó verið bent á hugsanlega væri rétt að senda þá ekki út úr bænum á þessum tímapunkti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×