Skoðun

Miðflokkurinn ætlar að umbylta fjármálakerfinu

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir skrifar
Miðflokkurinn ætlar að ráðast í kerfisbreytingar og endurskipuleggja fjármálakerfið. Miðflokkurinn hefur kynnt áætlun sína sem ber yfirskriftina 5+1, sem skiptist í fimm eftirtalda málaflokka: 1. Fjármálakerfið, 2. Atvinnulíf og nýsköpun, 3. Menntun og vísindi, 4. Heilbrigðiskerfið og 5. Réttindi eldri borgara. Þessu til viðbótar er svo heildstæð áætlun sem ber yfirskriftina „Ísland allt“ um það hvernig við ætlum að láta landið okkar virka allt saman sem eina heild.

Áætlunin snýst um það hvernig við ætlum að umbylta fjármálakerfinu þannig að það fari að virka fyrir almenning í landinu og fyrirtækin, þá sem eiga að geta nýtt sér þjónustu þess. Markmiðið er að ná eðlilegu vaxtastigi sem gerir fólki kleift að eignast heimili, gerir fyrirtækjum kleift að fjárfesta, skapa ný störf og nýjar hugmyndir. Viðhalda stöðugleika og banna verðtryggingu á nýjum neytendalánum. Búa til kerfi sem þjónar almenningi, betri húsnæðismarkað, fleiri og betri störf, aukna nýsköpun og verðmætasköpun. Við ætlum að nýta fjármagnið betur í stað þess að auka skatta.

Fyrsta skrefið í þessari sókn er að nýta forkaupsrétt ríkisins að Arionbanka. Þegar stóru bankarnir þrír eru komnir í eigu ríkisins er hægt að minnka bankakerfið með því að greiða út úr þeim verulegt umfram eigið fé til ríkisins til að nota í innviðauppbyggingu. Meðan svona mikið umfram eigið fé er inni í bönkunum þá er krafa um ávöxtun á allt þetta eigið fé og einhvern veginn verða bankarnir að ná þeirra ávöxtun. Við þurfum því að minnka bankana svo við náum vaxtastiginu niður.

Í nýrri greiningu Danske Bank kemur fram að eigið fé ís­lensku bank­anna sé mun ríflegra en hjá öðrum nor­ræn­um bönk­um. Samkvæmt útreikningum Morgunblaðsins 17. október 2017 séu viðskipta­bank­arn­ir í stakk bún­ir til þess að greiða allt að 240 millj­arða króna í arð til eigenda í því skyni að eig­in­fjár­hlut­fall þeirra verði með svipuðu sniði og ann­ars staðar á Norðurlönd­um.

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík Norður.




Skoðun

Sjá meira


×