Erlent

Miðborg Berlínar rýmd vegna sprengju úr seinna stríði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sprengjan fannst á vinnusvæði við Heidelstraße
Sprengjan fannst á vinnusvæði við Heidelstraße Vísir/epa
Heljarinnar rýming mun fara fram í miðborg Berlínar í dag. Þar munu sérfræðingar reyna að aftengja sprengju frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar sem fannst á vinnusvæði nærri aðallestarstöð borgarinnar á dögunum.

Rýmingin hefst klukkan 7 að íslenskum tíma og nær hún til allra húsa í 800 metra radíus frá sprengjunni. Innan þess svæðis falla opinberar byggingar, á borð við sendiráð Indónesíu og Úsbekistan, hersjúkrahús, tvö ráðuneyti og fyrrnefnd lestarstöð.

Flug til og frá Tegel-flugvelli mun þó ekki raskast, þrátt fyrir að því hafi verið beint til flugmanna að fljúga ekki beint yfir hinu rýmda svæði.

Lögreglan telur þó ekki mikla hættu á því að hin 500 kílóa sprengja, sem varpað var úr breskri sprengjuflugvél í seinna stríði, muni springa. Talið er að sjálf aftenging sprengjunnar fari fram seinni partinn í dag og ætti fólk því aftur að komast til vinnu sinnar og heimila í kvöld.

Fjölmargar sprengjur hafa fundist í Berlín og öðrum þýskum borgum á síðustu árum. Bandamenn vörpuðu ógrynni sprengja á Þýskaland á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar og urðu margar borgir illa úti, til að mynda Dresden sem var nánast jöfnuð við jörðu. Rýmingar sem þessar eru því nokkuð tíðar þar í landi og þekkjast fá dæmi þess að sprengjur hafi sprungið þegar reynt hefur verið að aftengja þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×