Sport

Miðabraskarar heima gætu fækkað Íslendingum í stúkunni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fjölmargir sátu eftir miðalausir meðan aðrir eru tilbúnir í næsta leik.
Fjölmargir sátu eftir miðalausir meðan aðrir eru tilbúnir í næsta leik. vísir/vilhelm
Það gæti farið svo að einhverjir braskarar muni brenna inni með miða sem þeir keyptu á leik Íslands og Englands í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu. Miðasala á leikinn hófst í hádeginu í dag og seldist upp á leikinn á skömmum tíma.

Hópurinn Ferðagrúppa fyrir EM2016 hefur tekið gífurlegan vaxtarkipp en frá í gær hafa ríflega þúsund einstaklingar bæst við í hann. Það er fjölgun um tæpan þriðjung. Flestir eru þar að óska eftir miðum á leikinn, aðrir benda á mögulega þriðja aðila til að versla miða af og enn aðrir leita krókaleiða til að leysa sína miða út.

Ólíkt miðunum í riðlakeppnina verða þessir miðar ekki sendir heim til fólks með pósti og ekki verður heldur hægt að nálgast þá rafrænt. Til að fá miðana í hendur verður fólk að mæta í miðasöluna í Nice og framvísa sama vegabréfi, eða öðrum gildum skilríkjum, og miðarnir eru skráðir á. Ella verða miðarnir eigi afhentir. Fólk hér heima sem keypti miða „til öryggis“, ef ske kynni að það færi út, og miðabraskarar gætu því lent í þeirri aðstöðu að brenna inni með sína miða þar sem það er í röngu landi.

Allianz Riviera völlurinn í Nice er minnsti leikvangurinn sem Ísland hefur leikið á hingað til í mótinu en hann tekur rúmlega 35.600 manns. Til samanburðar tekur Stade Geoffroy-Guichard í St. Etienne 42.000 manns.

Í 16-liða úrslitunum fengu stuðningsmenn þjóðanna ekki miðum úthlutað í ákveðnu hlutfalli líkt og í riðlakeppninni. Þeir sem höfðu keypt svokallaða „Follow your team“ miða, sem gera handhafa þeirra kleift að elta sitt lið meðan það er enn í keppninni, fengu miða en aðrir miðar voru settir í opna sölu.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ, við vinnslu fréttarinnar til að fá upplýsingar um hve margir miðar enduðu í íslenskum höndum eða hve margir sóttu um „Follow your team“ miða. Í desember í fyrra stóð sú tala í 548.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×