Erlent

MH17: Lík 80 farþega enn á vettvangi

Randver Kári Randversson skrifar
Flug Malaysia Airlines, MH17 fórst yfir austanverðri Úkraínu þann 17. júlí.
Flug Malaysia Airlines, MH17 fórst yfir austanverðri Úkraínu þann 17. júlí. Vísir/AP
Teymi með 70 rannsóknarsérfræðingum frá Hollandi og Ástralíu er nú komið að staðnum þar sem flak  farþegavélar Malaysia Airlines, sem fórst með 298 manns innanborðs þann 17. júlí, er staðsett. Teymið er sérútbúið til að leita að, og rannsaka líkamsleifar, en talið er að lík um 80 farþega séu enn á staðnum.

Átök á svæðinu hafa fram að þessu hindrað rannsóknarmennina í því að komast að flaki vélarinnar. Eftir að Úkraínuher ákvað að gera eins sólarhringshlé á hernaðaraðgerðum gegn aðskilnaðarsinnum í gær, komst rannsóknarteymið að flaki vélarinnar og kannaði vettvang. Fram kemur á vef BBC að rannsókn á svæðinu sé fyrirhuguð í dag.

Átök í nágrenninu hófust aftur í nótt, en aðskilnaðarsinnar í austurhluta Úkraínu réðust þá á bílalest Úkraínuhers þar sem að minnsta kosti 10 hermenn Úkraínuhers féllu. Aðskilnaðarsinnar segjast hafa grandað 30 farartækjum stjórnarhersins og fellt allt að 20 hermenn stjórnarhersins í árásinni.

Viðræður fóru fram í gær milli úkraínskra yfirvalda og aðskilnaðarsinna, með þátttöku Rússa og ÖSE, í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands. Talið er að yfir 1500 manns hafi fallið í átökum í austurhluta Úkraínu sem hófust í apríl.


Tengdar fréttir

Komast ekki að líkum vegna bardaga

Ættingjar farþega malasísku vélarinnar eru orðnir hræddir um að koma höndum aldrei yfir leifar fjölskyldumeðlima sinna.

Uppreisnarmenn þverneita að hafa skotið vélina niður

Leiðtogi uppreisnarmanna í Úkraínu segir að hann og hans menn hafi ekki yfir að ráða Buk-eldflaugum, en talið er að skotfæri af þeirri tegundinni hafi grandað flugvél Malasíska flugfélagsins, með flugnúmeri MH17.

Óvíst hvort kennsl verði borin á alla

Stefnt að því að lokið verði við að flytja allar líkamsleifar þeirra sem voru um borð í Malaysian flugvélinni verði allar komnar til Hollands á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×