Fótbolti

Mexíkóskur stjórnmálamaður kallaði Ronaldinho apa

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ronaldinho er mættur til Mexíkó.
Ronaldinho er mættur til Mexíkó. vísir/getty
Það eru ekki allir í Querétaro-ríkinu í Mexíkó jafnánægðir með að Brasilíumaðurinn Ronaldinho spili með Querétaro-liðinu, en þessi fyrrverandi besti knattspyrnumaður heims samdi við mexíkóska félagið á dögunum.

Gríðarlegur áhugi er á knattspyrnu í Mexíkó og ætlaði allt um koll að keyra í Querétaro þegar tilkynnt var að Ronaldinho hefði samið við liðið.

Þegar hann var kynntur fyrir stuðningsmönnum félagsins á La Corrogidora-vellinum komust færri að en vildu og myndaðist mikil umferðarteppa nálægt vellinum.

Þetta reiddi Carlos Manuel Trevinho, meðlim íhaldsflokksins í Mexíkó og fyrrverandi félagsmálaráðherra í Querétaro, til mikillar reiði og skrifaði hann á Facebook:

„Ég reyni að sýna þessu skilning, en ég hata fótbolta og hvernig hann fær alla til að breytast í fávita. Ég hata fótbolta enn meira því hann fær fólk til að flykkjast út á götu og standa í vegi fyrir mér,“ skrifaði hann, en spænska íþróttablaðið Marca greinir frá.

„Þetta allt saman verður til þess að það tekur mig tvo klukkutíma að komast heim. Og allt þetta bara til að sjá einhvern apa. Brasilíumann, en samt apa. Þessi sirkus er algjörlega fáránlegur.“

Trevinho þurfti fljótlega að henda færslunni vegna hundruða svara sem hann fékk frá bálreiðu fólki, en það var of seint. Yfirmenn knattspyrnuliðs Querétaro sendu svo frá sér tilkynningu vegna orða stjórnmálamannsins.

„Kynþáttaníð er alvarlegt vandamál sem særir fólk. Okkar félag hafnar allri mismunun. Þetta er ofbeldi sem við þurfum að útrýma sem samfélag,“ sagði í yfirlýsingu stjórnarinnar.

Félagið kallaði einnig eftir því að yfirvöld í borginni myndu skerast í leikinn og kröfðust þess að Trevinho yrði gerður að fordæmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×