Viðskipti innlent

Metár hjá Eimskip: Hluthafar fá 1,3 milljarða í arð

Haraldur Guðmundsson skrifar
Eimskip undirritaði í janúar samning við skipasmíðastöð í Kína um smíði á tveimur 2.150 gámaeininga skipum.
Eimskip undirritaði í janúar samning við skipasmíðastöð í Kína um smíði á tveimur 2.150 gámaeininga skipum. Vísir/Ernir
Eimskip hagnaðist um 21,9 milljónir evra, jafnvirði 2,5 milljarða króna, í fyrra og var afkoman þá 4,1 milljónum evra betri en árið 2015. Rekstrartekjur námu 513,9 milljónum evra og hækkuðu um 2,9 prósent milli ára.

Samkvæmt afkomutilkynningu flutningafélagsins var EBIDTA þess, hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, 5,3 milljónir evra og hækkaði um 18,3 prósent. Eiginfjárhlutfall var 62,2% og nettóskuldir námu 41,6 milljónum í árslok.

Stjórn Eimskips hefur lagt til 11 milljóna evra, eða um 1.273 milljóna króna, arðgreiðslu til hluthafa. Bréf félagsins eru skráð á Aðalmarkað Kauphallar Íslands. Horfur fyrir árið 2017 eru jákvæðar og félagið gerir ráð fyrir vexti í innflutningi til Íslands. 

„Ég er ánægður með að kynna árið 2016 sem metár hjá Eimskip. Tekjur voru 513,9 milljónir evra sem samsvarar 3,3 prósenta vexti miðað við aðlagaðar tekjur ársins 2015. EBITDA hækkaði í 53,5 milljónir evra og er það 23,7 prósenta vöxtur miðað við 43,2 milljóna evra aðlagaða EBITDA á árinu 2015. Á árinu var gjaldfærð 1,1 milljón evra vegna kostnaðar tengdum fjárfestingum í nýjum fyrirtækjum,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips í tilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×