Viðskipti innlent

Metanráðstefna á Íslandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ísland er eina Evrópulandið þar sem metan er notað beint af urðunarstað sem eldsneyti á ökutæki eftir að hafa farið í gegnum metan hreinsistöð SORPU í Álfsnesi.
Ísland er eina Evrópulandið þar sem metan er notað beint af urðunarstað sem eldsneyti á ökutæki eftir að hafa farið í gegnum metan hreinsistöð SORPU í Álfsnesi.
Miðvikudaginn 27. ágúst verður Norræna Biogas ráðstefnan sett í Reykjavík. Þetta er í fyrsta skipti sem ráðstefnan er haldin hér á landi en hana sækja margir af helstu alþjóðlegu sérfræðingum um lífrænt metan. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.  

Íslendingar hafa nokkra sérstöðu í framleiðslu og nýtingu á lífrænu metani því Ísland er eina Evrópulandið þar sem metangas er notað beint af urðunarstað sem eldsneyti á ökutæki. Þess má geta að með nýrri gas-og jarðgerðarstöð sem SORPA áformar að reisa í Álfsnesi á næstu misserum mun framleiðsla á lífrænu metani úr úrgangi tvöfaldast hér á landi að því er segir í tilkynningunni.

Þetta verður jafnframt stærsta fjárfesting sem SORPA hefur ráðist í frá stofnun. Gert er ráð fyrir að á þriðja hundrað þátttakendur sæki ráðstefnuna að þessu sinni, alls staðar að úr heiminum. Ráðstefnan verður á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík og sér SORPA um skipulagningu hennar með erlendum samstarfsaðilum.

Nordic Biogas ráðstefnan er stærsti vettvangurinn á Norðurlöndunum þar sem kynntar eru nýjustu rannsóknir og tækniframfarir við framleiðslu og notkun á lífrænu metani. Á ráðstefnunni er fjallað um flest allt sem viðkemur metani, svo sem ólíkum aðferðum við vinnslu og nýtingu lífræns metans, hráefni til gasgerðar, hreinsun á hauggasi, um notkun metans  til rafmagns- eða varmaframleiðslu, fljótandi eða þjappað metan (LNG/CNG), notkun við land- og sjóflutninga auk þess sem notkun á aukaafurðum eins og meltuvökva og jarðvegsbæti eru einnig gerð skil.

Umhverfisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson mun opna ráðstefnuna með ávarpi kl. 10:30 á miðvikudagsmorgun. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni eru tveir íslenskir vísindamenn þeir Magnús Guðmundsson, fagstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem mun gera grein fyrir aðferðum sem notaðar hafa verið hér á landi til að örva metanframleiðslu og Guðmundur Ólafsson frá verkfræðistofunni Mannviti sem fjallar um framleiðslu á gæða metani úr urðunarstaðnum í Álfsnesi.  

Af öðrum fyrirlestrum sem fluttir verða á Nordic Biogas ráðstefnunni að þessu sinni má nefna að Panyamee Schakamol frá Tailandi mun greina frá rannsókn á notkun þörunga til framleiðslu metans. Henrik B. Möller frá Danmörku kynnir vinnslu á metani úr blöndu af mykju og grasi og David Baxter, frá rannsóknarstofnun EU (European Commission JRC) mun fjalla um þróun í framleiðslu metans í þeim löndum sem tilheyra alþjóða orkumálastofnuninni (IEA). Þá mun Jörgen Held frá Svíþjóð gera grein fyrir mismunandi uppruna og framleiðslu á metani.

Í tengslum við ráðstefnuna verður sýning þar sem kynnt verða verkefni og ýmsar vörur sem tengjast nýtingu metans. Dagskrána á miðvikudaginn má sjá hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×